Fjölmennum á Fjölmenningardag Reykjavíkurborgar

Mannlíf Menning og listir

""

Fjölmenningardagur Reykjavíkurborgar verður haldinn hátíðlegur á morgun 10. maí.  Dagurinn er nú haldinn í sjötta sinn og má með sanni segja að hann hafi öðlast sess í hugum borgarbúa enda setur hátíðin skemmtilegan blæ á borgarlífið.

Fjölbreytt skemmtidagskrá verður í boði á laugardaginn sem hefst með setningarathöfn á Skólavörðuholti. Að því loknu fer fjölmenningarskrúðganga af stað áleiðis í Ráðhús Reykjavíkur. Fjöldi  fólks hefur ár hvert tekið þátt í göngunni og ræður litagleðin ríkjum, þátttakendur klæðast fallegum þjóðbúningum hinna ýmsu landa, og lúðrasveit verður í broddi fylkingar.

Þegar í Ráðhúsið kemur hefst fjölþjóðlegur markaður í Tjarnarsal þar sem gestir og gangandi geta kynnt sér menningu hinna ýmsu þjóðlanda og á boðstólum verða þjóðlegir réttir, listmunir og annar varningur. Úrval-Útsýn verður með kynningarbás og stendur fyrir ferðahappdrætti og þar eru veglegir ferðavinningar í boði.

Í Tjarnarbíó verður Sirkús Íslands, Páll Valdimar jójólistamaður, danshópurinn Swaggerific og indverskur kathak dans. Um kvöldið verður svo sýnt leikritið Ragnarrök – The end of the world. Leikstjóri er Juan Camilo Román Estrada.

Í Iðnó verður boðið upp á listasmiðju fyrir börn þar sem hægt verður að gera Origami, pappablóm, handalistaverk og margt fleira. Þá verður farið í leiki, hoppukastali verður fyrir utan og boðið upp á andlitsmálningu. Kenndir verða litháískir dansar og gestir geta gætt sér á risa afmælisköku í tilefni 10 ára afmæli litháíska skólans. Það ættu allir að geta fundið sér atriði við hæfi!

Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að taka þátt í hátíðahöldunum og fagna fjölbreytileikanum!

Gleðilegan Fjölmenningardag!