Fjölmenning í ljósi umhverfis og skipulags

Umhverfi Skipulagsmál

""
Fjallað verður um umhverfis- og skipulagsmál út frá sjónarhóli fjölmenningar á Kjarvalsstöðum þriðjudaginn 12. apríl kl. 20. Allir velkomnir
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir spennandi umræðufundi um fjölmenningu og skipulag á Kjarvalsstöðum 12. apríl klukkan 20. Fundurinn er í röðinni, Borgin, heimkynni okkar, og er markmiðið að færa umræðu um skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi.
 
Eitt af leiðarljósum Reykjavíkurborgar er að reykvískt samfélag fái notið fjölbreytni í mannlífi og menningu þar sem þekking, víðsýni, jafnrétti og gagnkvæm virðing einkenni samskipti fólks óháð uppruna. Hvernig birtist fjölmenningarborgin í málaflokkum umhverfis og skipulags? Hvernig má skapa borg sátta og samlyndis?
 
Frummælendur eru Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, Sabine Leskopf þýðandi, Pawel Bartoszek stærðfræðingur og Nichole Leigh Mosty leikskólastjóri. Þau munu flytja stutt erindi og ræða síðan um efnið. Eftir það verður opnað fyrir almennar umræður.
 
Fundirnir hafa verið mjög vel sóttir, bæði af fagfólki og áhugafólki um skipulag og umhverfi borgarinnar. Markmiðið er að skapa umræðu. Heiti fundanna hafa verið eftirfarandi: Hver á borgina? Er borgin heilsusamleg? Á að sameina sveitarfé lögin á höfuðborgarsvæðinu? Hver eru áhrif borgarumhverfis á hamingjuna?  Hvaða máli skiptir náttúran í borgarumhverfi?  Fyrir hverja er miðborgin? Vinsamleg borg fyrir börn og unglinga. Er miðborgin fyrir ferðamenn, íbúa eða alla? Loftslagsmál – hvað getum við gert? Menningararfurinn – framtíð og stefna.
 
Allir velkomnir, kaffi á könnunni og stemning á kaffihúsinu Kjarvalsstöðum.
 
Hægt er að horfa á nokkra af fyrri fundum á svæðinu netsamfélag.is. Þá má skrá sig á viðburðinn á facebook fyrir þá sem það kjósa.