Fjölbreytt verkefni fá Vestnorræna styrki

Menning og listir

""

Reykjavíkurborg er aðili að hinum Vestnorræna höfuðborgasjóði ásamt Nuuk og Þórshöfn. Sjóðurinn hefur að markmiði að efla skilning og samstarf,  m.a. á sviði menningarmála, milli þessara borga, íbúa þeirra, samtaka og stjórnmálamanna og veita fjárstyrki til verkefna sem þjóna þessum markmiðum.

Búið er að ákveða styrkveitingar á þessu ári en verkefnin sem styrkt eru tengjast samskiptum á milli höfuðborganna og efla tengsl þeirra með uppbyggjandi hætti, t.d. á sviði menningar, fræðslu, rannsókna eða íþrótta.

Stjórn sjóðsins fundaði 10. maí í Reykjavík og valdi 14 verkefni úr 21 umsókn um styrk.  Stjórnin óskar þeim sem fyrir valinu urðu hjartanlega til hamingju og hvetur styrkþega til að horfa á kynjaþátt verkefnanna í tilefni af því að nú er 100 ára kosningaafmæli kvenna á Íslandi.

Árlega eru verkefni styrkt fyrir tæplega sex milljónir króna (300.000 DK) en í ár er það meira vegna þess að ekki gengu allir styrkir út í fyrra. Vestnorræni sjóðurinn veitir í ár tæplega níu milljónir króna (450.000 DK) til verkefna sem snúa að mennta- og menningarmálum á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum.

Fimm styrkir til verkefna í Nuuk

B-67, U15 fótboltafélagið fær styrk til þátttöku í Rey Cup, Ísland. Með þátttökunni geta keppendur skipst á faglegri og félagslegri þekkingu á fótbolta auk þess að deila reynslu sinni af keppnismótum sem þessum.  Styrkupphæð er tæplega 396 þúsund íslenskar eða 20.000 danskar krónur.

NAPA, Norræna húsið í Grænlandi eða Norden 2040 fær styrk til gerð fagurbókmennta og túlkana sem lýsa því hvernig ungt fólk í dag frá Íslandi, Færeyjum , Grænlandi og Álandseyjum sér eigin framtíð og kannski sérstaklega út frá norrænni arfleið. Styrkupphæð er ríflega 1500 þúsund íslenskar eða 76.000 danskar krónur.

Strengjasveitin Agiartartoqatigiit og tónlistarskólinn í Nuuk fá styrk til þátttöku í NYSS, norrænu strengjasveitamóti fyrir börn og ungmenni. Styrkupphæð er tæplega 600 þúsund eða 30.000 danskar krónur.

NAPA, Norræna húsið á Grænlandi, Nuuk Nordisk fær styrk til samvinnu listamanna og sveitarfélaga frá Grænlandi, Færeyjum, Íslandi, Danmörku og Noregi til að halda kvikmyndahátíð og vinnusmiðju með þátttöku allra landanna.  Áhorfendum frá Þórshöfn og Reykjavík verður sérstaklega boðið til hátíðarinnar.  Styrkupphæð er tæplega 990 þúsund eða 50.000 danskar krónur.

Sundfélagið í Nuuk fær styrk til að fara og taka þátt í Reykjavík International Games. Félagið á þann draum að taka þátt í móti og styrkja þannig unga og efnilega sundmenn. Þetta er eina sundfélagið á Grænlandi og því veitir þátttaka í móti í Reykjavík þeim ómetanlegt tækifæri til að keppa og hitta annað sundfólk á svipuðu reki sem og að kynnast starfsemi annarra sundfélaga. Styrkupphæð er tæplega 475 þúsund eða 24.000 danskar krónur.

Þrír styrkir til verkefna í Þórshöfn í Færeyjum

NYSS – Ungir norrænir strengjahljóðfæraleikarar sjá um að haldin verði sumarráðstefna eða námskeið fyrir unga strengjaleikara á aldrinum sex til sextán ára í Færeyjum. Hugmyndin er að skapa net ungs tónlistarfólks frá öllum Norðurlöndunum og gefa því tækifæri til að hittast, spila saman og finna saman hinn norræna hljóm. Styrkupphæð er tæplega 692 þúsund eða 35.000 danskar krónur.

Venjingarskólinn/Grunnskóli Þórshafnar fær styrk handa Vestnorrænni æsku til viku námsferðar til Reykjavíkur. Þar munu ungmennin taka þátt í reykvísku skóla- og frístundastarfi. Tilgangur ferðarinnar er að nemendur í 7a fái innsýn í einstaka jarðfræðilega sögu Íslands sem og í menningarlegar og sögulegar aðstæður landsins auk þess að byggja upp persónuleg tengsl við íslenska jafnaldra. Styrkupphæð er tæplega 297 þúsund eða 15.000 danskar krónur.

Búnaðarstovan í Þórshöfn fær styrk til að halda  fimmtu norðlægu ullarráðstefnuna (5th North Native Sheep and Wool Conference). Þessi ráðstefna fer á milli landa og var síðast á Íslandi. Þar er fjallað  um sauðfjárrækt, ull og ullarafurðir. Á ráðstefnunni í ár verður horft til þess vanda sem blasir við ullariðnaði í Færeyjum. Litið er til þess hvernig aðrar þjóðir hafa leyst sinn vanda með ullina og hvernig hún getur áunnið sér sess sem verðmæt afurð auk þess að vera tákn um arfleið norðlægra þjóða. Styrkupphæð er tæplega 990 þúsund eða 50.000 danskar krónur.

Sex styrkir til verkefna í Reykjavík

Listasafn Reykjavíkur fær styrk fyrir sýninguna Tvær sterkar. Sýningin spannar bók um list Ruth Smith (1913 - 1959) frá Færeyjum og verk Júlíönnu Sveinsdóttur (1889 - 1966) frá Íslandi en báðar voru þær fyrstar kvenna til að skapa sér nafn sem listamenn í sínu heimalandi. Markmið sýningarinnar er að gefa fólki tækifæri til að fá innsýn í Vestnorræna menningarsögu, sér í lagi út frá listrænum sjónarhóli kvenna. Styrkupphæð er tæplega 396 þúsund eða 20.000 danskar krónur.

Háskóli Íslands, Rannsóknarsetur um norðurslóðir fær styrk til að gera sýningu um samband Færeyja, Íslands og Grænlands í sögulegu samhengi (1850-1980).  Ætlunin er að skoða samvinnu landanna í fortíð og nútíð og sjá í hvaða samhengi löndin hafa haft samstarf. Höfuðáherslan er á menningarsögulegu sambandi þjóðanna auk þess að skyggnast inn í hversdagslegt líf þeirra og stjórnmál.  Sýningin verður haldin á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. Styrkupphæð er tæplega er 1384 þúsund eða 70.000 danskar krónur.

Ármann Helgason fær styrk fyrir tónlistarflutning Duo Island – Færeyjar. Haldnir verða tónleikar með áherslu á að flytja tónverk eftir íslensk, og færeysk tónskáld auk annarra Norrænna tónskálda. Tónleikarnir verða haldnir í samvinnu við Norræna húsið í Reykjavík og Þórshöfn í Færeyjum. Tilgangurinn er að vekja athygli á Norrænum tónskáldum, ekki síst íslenskum og færeyskum en boðið verður upp á umræður í lok hverra tónleika. Styrkupphæð er tæplega er 198 þúsund eða 10.000 danskar krónur.

Alþjóðlega tónlistarakademían í Hörpu fær styrk til að bjóða Birita Dam, ungri tónlistarkonu frá Færeyjum, og leiðbeinanda hennar Bernhard Wilkinsson til Íslands. Markmið ferðarinnar er að byggja upp músíkölsk tengsl milli landanna auk þess að benda á að akademían er spennandi kostur fyrir unga tónlistarmenn frá Norðurlöndunum, Evrópu eða Bandaríkjunum. Einnig eru bundnar vonir við að bjóða Grænlendingum sambærilegt samstarf. Styrkupphæð er tæplega er 99 þúsund eða 5.000 danskar krónur.

Rannsóknir og greining fær styrk til að rannsaka ungmenni í Vestnorrænu löndunum. Rannsókninni er ætlað að skýra frá aðstæðum, velferð, lífskjörum , viðhorfum og væntingum ungmenna frá þessum þremur löndum. Þýði rannsóknarinnar er 15 - 16  ára ungmenni frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Þegar er búið að vinna rannsókn og greiningu á Íslandi og í Færeyjum en hingað til hefur ekki tekist að fjármagna rannsóknina á Grænlandi. Styrkupphæð er tæplega 600 þúsund eða 30.000 danskar krónur.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, undir heitinu Á brúninni (On the Edge) fær styrk. Hugmyndin er að skapa vettvang fyrir Ísland, Grænland og Færeyjar á kvikmyndahátíð í Reykjavík. RIFF mun sameina þessar þrjár eyjar með því að bjóða kvikmyndagerðarfólki að taka þátt í næstu hátíð RIFF  24. september -  4.október 2015. Meginmarkmið hátíðarinnar í haust verður að mynda tengslanet milli Íslands, Grænlands og Færeyja, og nota tækifærið á hátíðinni til að stuðla að samvinnu landanna í nútíma kvikmyndagerð. Styrkupphæð er tæplega 297 þúsund eða 15.000 danskar krónur.

Í stjórn sjóðsins sitja:

Nuuk – Kommuneqarfik Sermersooq
Asii Chemnitz Narup – borgarstjóri
Per Berthelsen – sveitarstjórnarfulltrúi
Malene Lynge – sveitarstjórnarfulltrúi

Reykjavik
Dagur B. Eggertsson – borgarstjóri
Sóley Tómasdóttir – forseti borgarstjórnar
Halldór Halldórsson – borgarfulltrúi

Tórshavn
Heðin Mortensen – borgarstjóri
Jógvan Arge – Fyrsti aðstoðarborgarstjóri
Elin Lindeskov –  Annar aðstoðarborgarstjóri