Félagsmálastjórar smökkuðu  heimsendan mat

Velferð

""

Velferðarsvið borgarinnar bauð félagsmálastjórum allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi ásamt fulltrúum eldri borgara að smakka á heimsendum mat sveitarfélaganna.

Ekki kom fram hvaðan hver matur væri en huga átti bæði að framsetningu og bragði matarins og velja þann mat sem væri bestur.

Kveikjan að þessu er að velferðarsvið hugar að breytingum í matarþjónustu borgarinnar bæði hvað varðar framboð og akstur á heimsendum mat og ákveðið var að taka opna umræðu um heimsenda matinn með hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu ásamt fulltrúum eldri borgara.

Eyjólfur Einar Elíasson, forstöðumaður í framleiðslueldhúsinu á Vitatorgi, sagði frá matarþjónustu borgarinnar. Sendir eru  út 302 matarbakkar á hverjum degi í heimahús en 924 einstaklingar fengu heimsendan mat á síðasta ári. Fólk velur hvaða daga vikunnar það fær heimsendan mat.

Að meðaltali eru framreiddar 533 máltíðir á dag  í eldhúsum á félagsmiðstöðvum velferðarsviðs í öllum hverfum borgarinnar en að auki eru að meðaltali 215 manns í mat á Vitatorgi en þar mæta flestir í hádegismat.

Félagsmálastjórar og fulltrúar eldri borgara voru tregir til að velja einn rétt fram yfir annan en Rannveigu Einarsdóttur, félagsmálastjóra í Hafnarfirði, fannst lax bestur en Unni Ingólfsdóttur, félagsmálstjóra í Mosfellsbæ, fannst laxinn verstur.  Ellert B. Schram frá Félagi eldri borgara (FEB) fannst allur maturinn góður enda ekki matvandur að eigin sögn. Þetta gefur góða mynd af því hve matarþjónustan er flókin því smekkur manna er svo mismunandi.

Sveitarfélögin reyna öll að hafa matinn fjölbreyttan en í umræðum hópsins sem snæddi saman kom fram hve miklu skiptir að vanda ekki bara hráefnið heldur líka framsetningu matarins. Viðmót þeirra sem keyra út heimsenda matinn hefur líka áhrif.

Fjallað var um tækifæri til samvinnu og möguleika á því að auka val fólks um rétti. Guðrún Ágústsdóttir, formaður öldungaráðs, benti einnig á að þær kynslóðir sem bráðum verða í hópi þeirra sem þiggur matarþjónustu borgarinnar eru kröfuharður hópur sem hefur vanist mun fjölbreyttara fæði frá ólíkum menningarheimum.

Félagsmálastjórar nutu bæði matarins og félagsskaparins og þarna gafst tækifæri til að ræða fleiri velferðarmál og leiða hugann að jólahaldi ekki síst með þá í huga sem eru einmana um jólin. Velferðarþjónusta kemur aldrei í stað ættingja og vina og framlag þeirra verður seint ofmetið. Í sameiningu hafa sveitarfélögin því ákveðið að minna íbúa á höfuðborgarsvæðinu á að huga vel að ættingjum og vinum sem þau vita að eru ein um jólin því samvera er besta jólagjöfin.