Fátækt meðal aldraðra

Velferð Mannréttindi

""
Opinn fundur öldungaráðs Reykjavíkurborgar var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær en efni fundarins var fátækt á meðal eldri borgara.
Kolbeinn H. Stefánsson, sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands flutti erindi um fátækt eldri borgara og þar kom m.a. fram skuldir hafa áhrif á stöðu eldri borgara og best er að losa sig við sem flestar skuldir áður en að eftirlaunaaldri er náð.
 
Ellý Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, flutti erindi um þjónustu við tekjulitla eldri borgara í Reykjavík. Í máli hennar kom fram að hagur eldri borgara með erlent ríkisfang er verri en þeirra sem safnað hafa lífeyrisréttindum með þátttöku á vinnumarkaði á Íslandi.
 
Kjörnir fulltrúar veltu fyrir sér  leiðum til að koma í veg fyrir fátækt á meðal aldraðra.
Frá Bjartri Framtíð talaði Ilmur Kristjánsdóttir, frá Framsókn og flugvallarvinum Jóna Björg Sætran, frá Samfylkingu Heiða Björg Hilmisdóttir, frá Sjálfstæðisflokki Halldór Halldórsson, frá Pírötum Kristín Elfa Guðnadóttir og frá Vinstri grænum Elín Oddný Sigurðardóttir.
 
Að lokum tóku allir viðstaddir þátt í opnum viðræðum. Meðal þeirra sem sátu fundinn voru Guðrún Ágústsdóttir,formaður öldungaráðs, Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara og fulltrúar allra flokka í borgarstjórn. Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs, sá um fundarstjórn.