Fagráð til að efla lestrarfærni og lesskilning

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum 20. ágúst að setja á fót fagráð um leiðir til að efla lestrarfærni og lesskilning barna og ungmenna í skólum borgarinnar. Tillagan er í samræmi við samstarfssáttmála nýs meirihluta Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Pírata.

Ráðið, sem skipað verður fræðimönnum og fagfólki,  mun taka mið af því markmiði í samstarfssáttmála nýs meirihluta borgarstjórnar, að allur þorri barna  í Reykjavík geti lesið sér til gagns á fyrstu árum grunnskólans. Hlutverk ráðsins verður að móta tillögur um hvernig megi efla lestrarfærni og lesskilning meðal reykvískra grunnskólanemenda, sem og málþroska, hljóðkerfisvitund og læsi barna í leikskólum borgarinnar. Jafnframt á það að endurskoða fyrirkomulag lesskimunar í skólum borgarinnar og leggja fram tillögur til úrbóta. Lögð verði áhersla á aðgerðir til að styðja við bakið á þeim nemendum sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda í lestrarnáminu. Þá er fagráðinu ætlað að benda á árangursríkar aðferðir í lestrarkennslu og námi, sem studdar eru fræðilegum rökum. Formaður ráðsins verður dr. Freyja Birgisdóttir, dósent við menntavísindasvið HÍ. Fagráðið skal hafa samráð við kennara og stjórnendur í leikskólum og grunnskólum og samtök foreldra.

Í greinargerð með þessari tillögu Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata í skóla- og frístundaráði kom m.a.fram að:

- Lestrarstefna fyrir grunnskóla borgarinnar var samþykkt í endanlegri mynd haustið 2012 og læsisstefna fyrir leikskóla borgarinnar í byrjun árs 2013. Flestir skólar í borginni hafi í framhaldinu gert sér áætlun um eflingu máls og lestrar. Lesskimunin Læsi hafi verið lögð fyrir nemendur í 2. bekkjum í grunnskólum Reykjavíkur í apríl ár hvert frá árinu 2002. Besti árangur sem hefur náðst í skimuninni var vorið 2011 en þá gátu 71% þeirra sem tóku þátt lesið sér til gagns samkvæmt þeim viðmiðum sem sett hafa verið. Vorið 2013 var hlutfallið 63% en vorið 2014 kom í ljós að 66% nemenda í 2. bekk virtust geta lesið sér til gagns. Niðurstöður PISA-rannsóknarinnar sem gerð var vorið 2012 bendi einnig til þess að þörf sé á samstilltu átaki fræðsluyfirvalda og skóla við að endurmeta vinnubrögð og áherslur varðandi lesskilning, náttúrulæsi og stærðfræðilæsi. Þó svo að meðaltal grunnskóla Reykjavíkurborgar sé hærra en á landinu öllu þá var það undir meðaltali OECD ríkja hvað varðar lesskilning og náttúrulæsi.

Fjölmargar íslenskar og erlendar rannsóknir staðfesta að staða barna í undirstöðuþáttum lestrarnáms í elstu árgöngum leikskólans og lestrarfærni í yngstu árgöngum grunnskólans hefur sterk tengsl við lestrarfærni þeirra síðar meir. Rannsóknir gefa einnig vísbendingar um að mikilvægt sé að finna snemma þau börn sem geta átt í erfiðleikum með lestrarnám og veita þeim viðeigandi kennslu og þjálfun. Með því að hefja skimun strax við upphaf skólagöngunnar má enn fyrr en nú finna þau börn sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda við lestrarnám og veita þeim nám og kennslu við hæfi.

Fagráðið á að skila tillögum sínum fyrir 1. febrúar 2015.