Fagnar 50 ára starfsafmæli

Skóli og frístund

""

Þóra María Stefánsdóttir á 50 ára starfsafmæli á leikskólanum Laugasól.

Heilmikið var um dýrðir í leikskólanum Laugasól í Laugarneshverfi í morgun en þá fagnaði starfsfólk leikskólans ásamt Þóru Maríu Stefánsdóttur sem á fimmtíu ára starfsafmæli í leikskólanum um þessar mundir.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Skúli Helgason, formaður skóla og frístundaráðs, komu í heimsókn og færðu Þóru Maríu blómvönd. Það mun vera fátítt að starfsmenn borgarinnar hafi unnið jafn lengi á sama vinnustað og Þóra.

Þóra kveðst enn vera ánægð í vinnunni. Hún segist ætla að fara að minnka aðeins við sig þótt hún sé ekkert á því að hætta að vinna alveg strax. Að sögn leikskólastjóranna á Laugasól er Þóra afbragðs starfskraftur og þeir eru ekki margir dagarnir á þessum 50 árum sem hún hefur forfallast.

Á Laugasól eru yfir 160 börn og Þóra segist njóta þess að umgangast þau á hverjum degi en hún vinnur á öllum deildum skólans og gengur í flest störf enda býr hún yfir hálfrar aldar reynslu.