Enn batna aðstæður hjólandi vegfarenda

Umhverfi Framkvæmdir

""

Nýr hjólastígur var opnaður í dag og markaði þessi einfalda athöfn upphaf árvissrar samgönguviku í Reykjavík,  en markmið hennar er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga.

Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs sagði þegar hann opnaði stíginn formlega að stefna Reykjavíkurborgar væri að gera hjólreiðar að alvöru valkosti. Áhersla væri á uppbyggingu hjólastíga á öllum meginleiðum og með slíkri uppbyggingu væri hlúð að vistvænum samgöngum.

Undanfarin ár hafa miklar endurbætur verið gerðar á hjólastígum í Reykjavík og áfram verður haldið á sömu braut. Samkvæmt hjólreiðaáætlun borgarinnar er stefnt að fimmföldun hjólastíga á fimm árum og tíföldun á tíu árum.  Hönnun hjólaleiða fer eftir aðstæðum á hverjum stað og því er þörf á fjölbreyttum lausnum. Miðað er við að aðskilja hjólandi og gangandi umferð og skapa rými fyrir reiðhjól í umferðinni þar sem því verður komið við, eins og segir í aðalskipulagi Reykjavíkur.

Stígurinn nýi liggur frá Suðurhlíð, nálægt vesturenda göngu- og hjólabrúar yfir Kringlumýrarbraut, upp að Sléttuvegi.  Leiðin fyrir hjólreiðafólk verður því mun greiðari og fljótfarnari en eldri leiðir um hverfið.  Í sumar var einnig lagður hjólastígur frá Laugavegi að Sóltúni meðfram Kringlumýrarbraut að vestanverðu.

Sjá nánar um dagskrá samgönguviku 2014.