Endurskoðuð félagsleg menntastefna

Velferð Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum 17. sept. endurskoðaða félagslega menntastefnu, en ráðið fundaði af því tilefni í húsnæði Námsflokka Reykjavíkur á Suðurlandsbraut 32. 

Ný félagsleg menntastefna leysir af hólmi félagslega menntastefnu frá árinu 2006 en töluverðar breytingar hafa orðið á starfsumhverfi Námsflokkanna síðan. Ný námstilboð hafa orðið til og þátttakendum í átaksverkefnum fjölgað. Grundvallarþættir í námi og kennslu eru þó þeir sömu og því verða megindrættir menntastefnunnar óbreyttir. Fallið verður frá íslenskukennslu fyrir útlendinga og gerðar nokkrar orðalagsbreytingar. Þá verður leitast við að styrkja samstarf við velferðarsvið borgarinnar um ýmis átaksverkefni og þeim tryggður betri rekstrarrammi, en Námsflokkarnir hafa sinnt allt að átta slíkum verkefnum árlega. 

Í bókun skóla- og frístundaráðs segir m.a:
Einkenni félagslegrar menntastefnu Reykjavíkurborgar er sveigjanleiki til að mæta mismunandi og síbreytilegum aðstæðum í þjóðfélaginu. Hlutverk Námsflokka Reykjavíkur byggir á sveigjanleika í kennsluháttum og skipulagi og að þeir hafi frumkvæði í fullorðinsfræðslu sem leiði til þess að til verði fleiri námsleiðir fyrir íbúa Reykjavíkurborgar í samstarfi við aðrar borgarstofnanir, opinbera fræðsluaðila og félagasamtök. Skóla- og frístundaráð leggur áherslu á markvisst samstarf innan sem utan Reykjavíkurborgar í fullorðinsfræðslu í þeim tilgangi að takast á við það mikla verkefni að stór hluti vinnuaflsins á almennum markaði hefur ekki lokið prófi umfram grunnskóla.

Námsflokkar Reykjavíkur hafa verið starfræktir í 75 ár og veitt fjölmörgum borgarbúum eldri en 16 ára ný tækifæri til náms. Kannanir sem endurskoðuð stefna byggir á sýna að nemendur eru ánægðir með gagnsemi og samsetningu námsins, aðbúnað og samskipti við leiðbeinendur. Starfsemi Námsflokkanna var flutt fyrir þremur árum í núverandi húsnæði á Suðurlandsbraut. Þar stunduðu á liðnu ári hátt í þrjú hundruð einstaklingar nám, auk þess sem náms- og starfsráðgjafar veittu á annað þúsund manns ráðgjöf.

Endurskoðaðri félagslegri menntastefnu var vísað til samþykktar í borgarráði.