Endurfæðing - verk í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna

Menning og listir

""
Verkið ENDURFÆÐING eftir Karenu Briem verður afhjúpað formlega í dag fimmtudaginn 3. desember úti á Granda. Verkið er það síðasta sem sett er upp á árinu til að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Opnunarteiti verður haldið á veitingastaðnum Bergsson RE í húsi Sjávarklasans úti á Granda klukkan 17. Boðið verður upp á kakó ásamt jólalegu meðlæti - Katrín Helga Andrésdóttir mun syngja fyrir gesti og Bergþóra Einarsdóttir les frumsamið ljóð um inntak verksins.
 
Í verkinu ENDURFÆÐING er skapaður griðastaður í formi móðurlífs þar sem tækifæri gefst til að endurheimta það hugarsástand þar sem misrétti og fordómar voru okkur með öllu framandi. Í rýminu sem verkið býður upp á gefst okkur svigrúm til að hugleiða hvernig við getum verið betri fyrirmyndir og þannig stuðlað að jákvæðum breytingum í samfélaginu.

Verkið er það síðasta sem sett er upp á árinu til að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Tilgangur þess er að vekja fólk til umhugsunar um að misrétti og fordómar eru viðhorf sem við þróum með okkur út frá fyrirmyndum. Einu sinni voru allir í formi lítillar frumu sem fann sér stað til þess að dafna. Fyrsta vagga okkar allra er úr nákvæmlega sama efniviði. Það er fyrst þegar við yfirgefum hana að mismunun á sér stað.
Verkið ENDURFÆÐING verður aðgengilegt almenningi á vesturgafli húss Sjávarklasans frá og með fimmtudeginum 3. desember.

Hægt verður að liggja og koma sér fyrir inn í verkinu en það er ofið úr kaðli á vegg rétt eins og klifurgrind á leikvelli – þétt kaðlalagið skapar notalega stemmingu innan í móðurlífinu. Þar sem verkið er unnið úr kaðli sem notaður er til sjós á staðsetning þess afar vel við. Eftir umhugsun í móðurlífinu og endurfæðingu í framhaldi stíga gestir aftur út í heiminn fullir umburðarlyndis.

100 ára afmæli kosningaréttar kvenna hefur verið kjörið tilefni til að rýna í hvað hver og einn getur lagt af mörkum til þess að auka jafnrétti í samfélaginu. Mikilvægt er að koma jafnréttisskilaboðum áleiðis með sem fjölbreytilegustum hætti og er verkið liður í þeirri viðleitni.

Karen er menntaður búningahönnuður (M.A Costume Design for Performance frá London College of Fashion ásamt því að hafa lokið námi við Københavns Mode- og Design Skole). Hún hefur bæði í námi og vinnu unnið búninga sem eru feiknastórir að umfangi – þá mætti jafnvel kalla „klæðilega skúlptúra“. Líkaminn er notaður sem tæki til þess að upplifa nýjar tilfnningar og stigið er út fyrir hinn hefðbundna ramma daglegs notagildis. Verk hennar bjóða upp á eftiminnilega upplifun með beinni líkamlegri snertingu og geta leitt til þess að áhorfandinn/þátttakandinn endurskoði viðhorf sitt.