EM torgið á Ingólfstorgi snýr aftur

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Ísland hefur leik í lokakeppni EM í Hollandi þann 18. júlí. Í ljósi vinsælda EM torgsins í fyrra tóku aðstandendur þess, KSÍ og bakhjarlar þess, strax ákvörðun um að bjóða fótbolaþyrstum upp á úrvals aðstöðu í miðborginni til að fylgjast með stelpunum okkar og öllum hinum leika listir sínar í Hollandi í sumar.

Á meðan EM stendur yfir í sumar í Hollandi má segja að Ingólfstorg gegni eins konar hlutverki heimavallar Íslands, en þar er búist við að fjölmargir borgarbúar eigi eftir að safnast saman og horfa á Ísland spila. Ingólfstorgið verður undirlagt allt mótið og mun ganga undir nafninu EM-torgið. Markmiðið er að fólk, og ekki síður fjölskyldur, geti upplifað alvöru EM stemningu. Slík torg eru mjög vinsæl í erlendum stórborgum. Fastlega má búast við að ferðamenn nýti sér torgið en allir leikur á mótinu verða sýndir á risaskjá og útlit fyrir að metfjöldi erlendra ferðamanna komi til landsins.

Dagskráin hefst 16. júlí kl. 16.00 með opnunarleik mótsins á milli Hollands og Noregs. Allir leikir verða sýndir í beinni útsendingu í samstarfi við RÚV. Aukin dagskrá verður á EM-torginu í kringum leiki Íslands og fjölbreytt skemmtun í boði fyrir alla fjölskylduna.  Fylgjast má með dagskrá EM torgsins á Facebook síðu þess.

Það eru KSÍ, Borgun, Icelandair, Íslenskar getraunir, Landsbankinn, N1, Coca-Cola Euopean Partners Ísland og Reykjavíkurborg sem standa að EM torginu í samvinnu við RÚV.