Elsku stelpur komu sáu og sigruðu í Skrekk

Skóli og frístund

""
Hagaskóli fór með sigur af hólmi í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna á stórskemmtilegu úrslitakvöldi í Borgarleikhúsinu í kvöld.
 
Lið Hagaskóla var skipuð stúlkum sem kröfðust pláss í siguratriðinu Elsku stelpur. Mikill fögnuður var í salnum þegar úrslitin lágu fyrir en öll atriðin sem kepptu til sigurs voru þaulæfð og vel útfærð af nemendum úr átta skólum: Háteigsskóla, Austurbæjarskóla, Hlíðaskóla, Seljaskóla, Hólabrekkuskóla, Foldaskóla, Árbæjarskóla og Hagaskóla. 
 
Svo fóru leikar að atriði Hagaskóla Elsku stelpur náði sigursætinu, annað sætið hreppti Árbæjarskóli með atriðnu Fjölbreytileikinn litar lífið og þriðja sætið kom í hlut Seljaskóla en það hét Í dyggðinni dvelur sálin. 
 
Þessi texti eftir Unu Torfadóttur eru úr siguratriðinu Elsku stelpur: 
Stelpur krefjast athygli
ekki reyna að hunsa okkur.
Stelpur krefjast tækifæra
ekki reyna að hindra okkur
Stelpur krefjast virðingar
ekki reyna að stoppa okkur.
Stelpur krefjast jafnréttis
látum ekkert stoppa okkur!
 
Mikil stemming var á úrslitakvöldinu í Borgarleikhúsinu en bein útsending var frá úrslitakeppninni á Skjá einum. Allt ætlaði um koll að keyra þegar poppstjarna Íslands Páll Óskar steig á stokk og fagnaðarlætin náðu svo hámarki þegar tilkynnt var um sigurvegara kvöldsins. 
Það má því með sanni segja að unglingamenningin hafi blómstrað sem aldrei fyrr og allir farið sem glaðir sigurvegarar heim.