Deilibílaþjónustan Zipcar hefur starfsemi í Reykjavík

Samgöngur Umhverfi

""

Zipcar deilibílaþjónusta var kynnt í Háskólanum í Reykjavík í dag. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri prufukeyrði einn af tveimur Zipcar bílum sem verða staðsettir við háskólann og nýtist hverjum þeim sem eru meðlimir í kerfinu.

Reykjavík er fyrsta borgin á Norðurlöndum þar sem boðið er upp á þjónustu Zipcar.  Deilibílaþjónusta er nýjung í ferðamáta innan höfuðborgarsvæðisins þar sem notendur deila bílum í stað þess að eiga sjálfir bíl, eða til að bæta við akstursþörfina án þess að bæta við bíl númer tvö.

Hug­mynd­in geng­ur út á að not­end­ur geti nálg­ast bíla til að nýta í stutt­ar ferðir og geta meðlim­ir Zipcar bókað bíl eft­ir þörf­um með appi all­an sól­ar­hring­inn. Bíll­inn er bókaður með Zipcar-app­inu og skilað aft­ur á sama stæðið þegar notk­un lýk­ur.

Samgönguvika Reykjavíkurborgar hófst í dag en það er evrópskt átak um bættar samgöngur í borgum og bæjum. Markmið vikunnar er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga. Deilibíla kerfi er því ein leið til þess að bæta samgöngur í borgum og bæjum.

Reynsla Zipcar erlendis frá sýnir að einn af hverjum fjórum notendum hefði annars keypt einkabíl og þar með aukið bílaflotann á götunum. Einnig er vel þekkt að einkabílar standa óhreyfðir stærstan hluta dagsins á meðan deilibíllinn er aðgengilegur þegar á þarf að halda. Deilibílaþjónusta stuðlar því að betri nýtni þeirra bíla sem eru á götunni, sem er einnig jákvætt gagnvart umhverfinu.

Deilibílar eru því einn af ferðamátum framtíðarinnar, þar sem íbúar borga kjósa fremur að deila bíl með öðrum og nota almenningssamgöngur, hjólreiðar og fara fótgangandi frekar en að eiga og reka einkabíla.

Nánar um Zipcar á zipcar.is