Charles Duke geimfari heimsækir Höfða

Mannlíf

""

Charles Duke, tunglfari heimsótti Höfða í dag en hann hefur dvalist á Íslandi síðustu daga. Hingað til lands komu Duke og kona hans Dorothy í boði Könnunarsögusafnsins á Húsavík sem Örlygur Hnefill Örlygsson starfrækir.

Duke hóf heimsókn sína á því að taka skólfustungu að viðbyggingu við Könnunarsögusafnið á Húsavík síðastliðinn laugardag og naut aðstoðar krakka í bænum. Því næst fór hann í leiðangur í Nautagil í Dyngjufjöllum en þangað kom Duke árið 1967 ásamt fleiri geimförum NASA, sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni, til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Duke var í áhöfninni í leiðangri Apollo 16 árið 1973 og höfðust þeir John W. Young þá við á yfirborði mánans í á þriðja sólarhring.

Duke, sem er búsettur í Texas í Bandaríkjunum, er 81 árs að aldri og sestur í helgan stein, eftir langan feril í flugi og geimvísindum. Duke hefur haldið fyrirlestra víða um heim og sagt frá ferð sinni með Apollo 16. Hann hélt fyrirlestur fyrir unglinga í Háskólanum í Reykjavík í gær og sagði hann afar ánægjulegt að finna hversu mikinn áhuga þau hefðu á geimvísindum og sagði aðdáunarvert hversu góða ensku krakkarnir töluðu.

Duke og eiginkona hans komu í heimsókn í Höfða í dag og skoðuðu húsið. Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi og Þórgnýr Thoroddsen varaborgarfulltrúi tóku á móti gestunum og boðið var upp á skoðunarferð um húsið.

Hjónin voru afar ánægð að hafa fengið tækifæri til að koma í Höfða og fá að heyra sögu hússins og um leiðtogafund þeirra Reagans og Gorbasjefs. Að lokinni heimsókninni var ferðinni heitið til Keflavíkur þar sem þau héldu heim á leið.