Buslað með brunnklukkum

Umhverfi Íþróttir og útivist

""

Fræðsludagskrá Reykjavík-iðandi af lífi fyrir sumarið 2015 er komin vel á veg og næsti viðburður verður á laugardaginn 18. júlí kl 13. Þá verður boðið upp á skemmtilega smádýraskoðun við Rauðavatn. Gestir munu taka þátt við að safna ferskvatnssmádýrum eins og brunnklukkum, tjarnatítum, andablóðsugum og hornsílum svo fátt eitt sé nefnt og skoða þau á staðnum. Líffræðingur mun fræða gesti um lífríki vatnsins. Þessi viðburður hentar sérstaklega vel börnum og eru þátttakendur hvattir til að koma með eigin fötur og háfa. Allir eru velkomnir og þátttaka er ókeypis.

Á sumrin eru vötn og tjarnir á Íslandi iðandi af lífi. Rauðavatn er grunnt og lífauðugt og þar eru góðar aðstæður til að sjá skemmtileg vatnadýr. Þar er mikið um hornsíli en einnig vatnaskordýr eins og brunnklukkur og tjarnatítur. Önnur smádýr sem eru algeng eru t.d. vatnabobbar, andablóðsugur og krabbaflær. Einnig er mikið af forvitnilegum vatnagróðri.

Fræðsluviðburðurinn hefst kl. 13 og verður hist við bílastæðið vestan við vatnið þar sem skautasvell er gjarnan á veturna. Þaðan verður gengið meðfram suðurströnd vatnsins og fundnir heppilegir staðir til að leita að smádýrum. Allir sem vilja taka þátt í að reyna að veiða dýrin og verður þeim safnað í fötur og í bakka þar sem þau verða skoðuð nánar áður en þeim er sleppt aftur. Snorri Sigurðsson líffræðingur og verkefnastjóri Reykjavík-iðandi af lífi mun fræða gesti um það sem fyrir augu ber.

Reykjavík-iðandi af lífi er fræðsluátak um líffræðilega fjölbreytni í Reykjavík sem er í umsjón umhverfis - og skipulagssviðs borgarinnar. Í sumar verður  fjölbreytt fræðsludagskrá með reglulegum viðburðum. Fræðsludagskrána má sjá hér og á heimasíðu Reykjavík-iðandi af lífi. Sjá einnig Facebook síðu fræðsluátaksins.