Brot úr Berlínarmúr við Höfða

Umhverfi Skipulagsmál

""
Borgarráð hefur samþykkt að taka boði frá þýsku listamiðstöðinni Neu West Berlin í Berlín um að taka við hluta úr Berlínarmúrnum til eignar og varanlegrar uppsetningar. Brotið sem um ræðir er 4 tonn og verður að öllum líkindum komið fyrir við Höfða.

Í greinargerð sem lögð var fyrir borgarráð kemur fram að um veglega gjöf sé að ræða sem sé hluti heimssögulegra viðburða og hlaðin merkingu.  Þá segir enn fremur að ef af verði þá liggi beinast við að setja verkið upp í námunda við Höfða af sögulegum ástæðum enda hafi verkið aðdráttarafl í sjálfu sér og hægt verði að tengja það við leiðtogafundinn 1986, fyrirhugað friðarsetur í Reykjavík og ýmis verkefni Reykjavíkurborgar á sviðum menningar, mannréttinda og lýðræðisþróunar.

Í gjöfinni felst  einnig tækifæri til að styrkja tengsl Reykjavíkur og Berlínar til frambúðar. Hugur listamiðstöðvarinnar stendur til að verkið verði afhjúpað við formlega athöfn í tengslum við hátíðarhöld á þjóðhátíðardegi Þýskalands þann 3. október. Þá verður jafnframt haldið upp á 25 ára afmæli endursameiningar Þýskalands.

Hluturinn er um 370x115x150 að stærð og um 4 tonn að þyngd og og er kostnaður við verkefnið  áætlaður um 1,5 milljónir. Samskip hefur lýst yfir áhuga á að sjá um flutning verksins frá Berlín til Reykjavíkur, borginni að kostnaðarlausu. Málinu hefur verið vísað áfram til vinnslu menningar- og ferðamálasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs.

Brot úr Berlínarmúrnum hafa verið gefin víða um heim - meðal annars eru vegghlutar staðsettir við Wende Museum í Los Angeles, við Aspen Art Museum í Colorado, við MTV Networks International í London og við Ronald Reagan bókasafnið í Simi Valley í Kaliforníu.  Þá er brot sem spretthlauparinn Jusain Bolt fékk að gjöf árið 2009, frá þáverandi borgarstjóra Berlínar Klaus Wowereit, til að minnast heimsmets Bolt í 100 metra spretthlaupi sem hann setti á heimsmeistaramótinu í Berlín það ár í heimaborg Bolt, Kingston á Jamaíka.