Breytingar á leigukerfi Félagsbústaða

Velferð

""

Borgarráð samþykkti þann 15. desember síðastliðinn að frá og með 1. febrúar 2017 verði tekið upp nýtt leiguverðskerfi hjá Félagsbústöðum.

Markmiðið með breytingunum er að auka jafnræði meðal leigjenda og tryggja félagslega fjölbreytni í öllum hverfum borgarinnar hvort sem um er að ræða almennt félagslegt leiguhúsnæði, þjónustuíbúðir aldraðra eða sértæk húsnæðissúrræði.

Leiga verður reiknuð út frá verðmæti hverrar eignar og verður þá miðað við fasteignamat á viðkomandi svæði. Þetta er gert til að jafna leiguverð milli nýrra og eldri eigna Félagsbústaða, til að leiguverð endurspegli gæði eigna og til að viðskiptavinir Félagsbústaða geti leigt íbúðir í öllum hverfum Reykjavíkur.

Breyting á leiguverðskerfi getur falið í sér hækkun eða lækkun á húsaleigu sem mun taka gildi í áföngum. Breytingin verður innleidd með þeim hætti að húsaleiga hækkar eða lækkar um 3.500 krónur á mánuði þangað til tilskilinni upphæð verður náð. Hjá langflestum eða yfir 90% leigutaka Félagsbústaða verður breytingin lægri en 12.500 krónur á mánuði. Ef greiðslubyrði leigutaka hækkar um 10.000 eða meira, eftir að tillit hefur verið tekið til húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings, munu þjónustumiðstöðvar hafa samband við leigutaka og ræða hvaða leiðir standa til boða.

Leigjendur munu fá send bréf frá Félagsbústöðum hf. í upphafi árs 2017 þar sem allar upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar munu koma fram.

Reykjavíkurborg hefur sett fram þá stefnu að félagslegum leiguíbúðum verði fjölgað um 500 til ársins 2021 með megináherslu á að tryggja félagslega blöndun í öllum hverfum.