Breiðholtsskóli og Foldaskóli áfram í Skrekk

Skóli og frístund

""

Mikil stemming var á þriðja undanúrslitakvöldi Skrekks, hæfileikahátíðar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, sem fór fram í Borgarleikhúsinu í gærkvöld. Átta grunnskólar kepptu til úrslita; Breiðholtsskóli, Dalskóli, Foldaskóli, Hagaskóli, Háaleitisskóli, Hlíðaskóli, Kelduskóli og Sæmundarskóli. 

Alls tóku um 200 ungmenni þátt í þeim frumsömdu atriðum sem flutt voru á undanúrslitakvöldinu og sýndu hæfileika sína í leik, söng, dansi, tónlist, búningahönnun, förðun og annarri sviðslistavinnu.

Breiðholtsskóli og Foldaskóli komust áfram í útslitakeppnina en lokakvöld keppninnar verður í Borgarleikhúsinu mánudaginn 13. nóvember og í beinni útsendingu á RÚV. Á útlistakvöldinu munu átta skólar keppa um hinn eftirsótta Skrekk sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun afhenda. 

Alls taka 26 unglingaskólar þátt í Skrekk á þessu ári, fleiri en nokkru sinni áður. Áður voru Langholtsskóli, Árbæjarskóli, Réttarholtsskóli og Rimaskóli komnir í úrslit. Í fyrramálið verður tilkynnt um hvaða tvö önnur atriði dómnefndin velur áfram af undankvöldunum þremur.