Börn móta menntastefnu

Skóli og frístund

""
Fjörlegar umræður urðu meðal grunnskólabarna þegar þau ræddu framtíðarskólann og nýja menntastefnu í Reykjavík fram til ársins 2030. Nemendur og börn taka þátt í stefnumótuninni til jafns á við fullorðna og höfðu margt til málanna að leggja. 

Meðal þess sem fram kom á stefnumótunarfundi með grunnskólanemendum voru óskir um meiri kennslu í forritun, betri fjármálafræðslu, meiri stærðfræði og meiri tækni. Þá komu fram ýmsar hugmyndir um betri mat og matarmennningu í skólum, mikilvægi góðrar líðunar, geðheilsuræktun, slökun, meiri hinsegin fræðslu og umhverfisvitund.

Tvö börn úr hverjum skóla sóttu fundinn og lögðu fram hugmyndir sínar að áherslum í stefnumótuninni sem unnið verður að út þetta ár. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs voru meðal þeirra sem ræddu við börnin, auk Helga Grímssonar sviðsstjóra SFS og starfsmanna sviðsins sem stýrðu umræðunum

Stefnt er að því að ljúka stefnumótun um nýja menntastefnu fram til ársins 2030 fyrir árslok og koma fjölmargir að henni, nemendur, foreldrar, starfsfólk, stjórnendur, fræðimenn og fl.