Börn í Vesturbæ vinna með Barnasáttmálann

Skóli og frístund Mannréttindi

""

Starfið í frístundaheimilum í Vesturbæ er þessar vikurnar helgað efni Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem á 25 ára afmæli 20. nóvember. 

Börnin í frístundaheimilunum Frostheimum, Undralandi, Selinu og Skýjaborgum hafa fengið kynningu á Barnasáttmálanum og gildunum sem í honum koma fram. Alla þessa viku er dagskrá sem tengist barnasáttmálanum með það að markmiði að hjálpa börnunum að skilja réttindi sín og til hvers Barnasáttmálinn er.

Þau ræða muninn á grundvallarmannréttindum og forréttindum og vinna verkefni í í bókinni „Réttindin mín´´. Sérhver dagur hefur sitt þema og unnið er í listasmiðjum alla daga vikunnar. Í íþróttasal er jafnframt boðið upp á leiki sem byggja á samkennd, samvinnu og að enginn eigi að vera beittur órétti. 

Þá fá börnin í þessu starfi að kynnast því hvernig það er þegar þau eru svipt ákveðnum réttindum. Þau leita svara við spruningum eins og; hvernig ætli það sé að búa á stað þar sem grundvallarmannréttindi eru fótum troðin?, hvernig er að vera sviptur sjálfræði sínu og valfrelsi? Má maður mótmæla slíku?

Í lok þessa verkefnis munu börnin fagna frelsinu og þeim grundvallarmannréttindum sem ávallt skulu í heiðri höfð um allan heim.