Börn í brennidepli í úttektum velferðarsviðs

Velferð

""

Á fundi velferðaráðs fimmtudaginn 16. nóvember var úttektaráætlun velferðarsviðs fyrir árið 2018 kynnt en viðamesta úttektin nær til barnaverndarstarfs Reykjavíkurborgar.

Málefni barna verða sett á oddinn á næsta ári en fjórar úttektir lúta að þjónustu við börn og ungmenni. Gerð verður úttekt á skipulagi barnaverndarstarfs í Reykjavík, starfsumhverfi starfsmanna og verkaskiptingu á milli barnaverndar og þjónustumiðstöðva borgarinnar. Auk þess verða barnaverndarúrræðin kortlögð, bæði aðgengi að þeim og hvernig reynsla notenda og/eða aðstandenda er af þjónustunni. Sérstök úttekt verður gerð á Hamarskoti, sem er fjölskylduheimili fyrir börn og ungmenni á aldrinum15 til 20 ára og matstækinu ESTER, sem er sem er verkfæri til að skima vinnu með börnum 0-18 ára. Þá verður gerð úttekt á verkefninu TINNU í Breiðholti, en því er ætlað að auka lífsgæði foreldra og barna sem búa við erfiða fjárhagslega og félagslega stöðu.

Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs þá er mikilvægt að gera reglubundnar greiningar á starfsumhverfi starfsmanna barnaverndar og þeim úrræðum sem þeir hafa aðgang að í daglegu starfi. Markmiðið er að nýta niðurstöður könnunarinnar til að treysta faglegt starf og styðja sem best við starfsmenn í viðkvæmum og oft á tíðum flóknum verkefnum. Úttektinni er einnig ætlað að leiða fram skýringar á þeirri kostnaðaraukningu sem hefur verið í málaflokknum á undanförnum árum, meðal annars vegna vistunar barna utan heimilis. ,,Það er mikilvægt að skoða samspil Reykjavíkurborgar og ríkisins hvað varðar vistanir og meðferðarúrræði en það er mat starfsmanna að með fækkun meðferðarheimila þá hafi kostnaður sveitarfélagsins vegna vistana aukist,“ segir Regína.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkurborgar fer með málefni barna samkvæmt barnaverndarlögum en velferðarráð hefur stefnumótandi hlutverk og annast rannsóknir og úttektir í málaflokki barna og ungmenna.

Það er deild rannsókna og gæða hjá velferðarsviði sem gerir árlega áætlun í samráði við stjórnendur um þær úttektir og rannsóknir sem velferðarsvið annast hverju sinni. Auk ofantalda úttekta verða á næsta ári gerðar úttektir á húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk, kannað verður hvernig staðið er að kröfulýsingum í búsetuendurhæfingu og skoðaður verður árangur af því að vinna aðgerðaráætlun um fjárhagsaðstoð.

Meðal úttekta sem unnar hafa verið á þessu ári var viðhorfskönnun meðal notenda og aðstandenda í þrem búsetukjörnum fyrir fatlað fólk varðandi líðan og aðstæður, úttekt á starfsmannahópi á sambýlum og búsetukjörnum fyrir fatlað fólk, framkvæmd persónulegrar ráðgjafar við fatlaða einstaklinga, verklagi og faglegu vinnulagi í barnaverndarúrræðinu á Ásvallagötu, kortlagningu á fjölda og högum utangarðsfólks í Reykjavík og úttekt á þjónustu við reykvísk börn í Vinakoti. Í vinnslu er úttekt á þjónustu við börn foreldra sem eru með fjárhagsaðstoð til framfærslu í 6 mánuði og lengur, rannsókn á aðstæðum fátækra barna, úttekt á skráningu upplýsinga sem eru veittar í kvöld- og helgarþjónustu heimaþjónustu, mat á tilraunaverkefninu „Sveigjanleiki – frá barni til fullorðins“ og könnun á stöðu geðheilbrigðis og geðheilbrigðisþjónustu í sértækri búsetuþjónustu í Reykjavík.

Úttektir af þessu tagi gefa velferðarsviði og velferðarráði mynd af árangri í starfi sviðsins og þær eru einnig vísir af því hvar skóinn kreppir í þjónustu við einstaka hópa sbr. börn, utangarðsfólk og fatlaða einstaklinga. Þær eru þannig vegvísir að bættri þjónustu og þróun í starfi velferðarsviðs.

Úttektir á vegum velferðarsviðs