Börn ganga í skólann að hausti en hjóla að vori

Umhverfi Skóli og frístund

""

Ferðavenjur borgarbúa hafa verið nokkuð stöðugar á liðnum árum. Ný könnun var gerð í október.

Tvær spurningar eru spurðar árlega á vegum Reykjavíkurborgar „Með hvaða hætti fór barnið þitt/börnin þín í grunnskólann síðast þegar það/þau sóttu skóla?“ og „Með hvaða hætti ferðast þú að jafnaði til vinnu eða skóla á morgnana?“ 

Markmið Reykjavíkurborgar er að hlutdeild bílaumferðar á götum borgarinnar verði 58% árið 2030, almenningssamgangna 12% og gangandi og hjólandi 30% í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur, stefnu borgarinnar um eflingu almenningssamgangna, hjólreiðaáætlun og loftslagsstefnu.

Þessar spurningar hafa verið lagðar fyrir í nokkur ár á haustmisseri og frá 2016 einnig á vormisseri. Gallup sér um framkvæmd könnunarinnar en um var að ræða netkönnun sem gerð var dagana 6.-19. október 2016. Úrtakið var 1044 Reykvíkingar, 18 ára eða eldri  og var þátttökuhlutfall 60,6%

Hvernig fór barnið í grunnskólann?

Spurt var „Með hvaða hætti fór barnið þitt/börnin þín í grunnskólann síðast þegar það/þau sóttu skóla?“ Niðurstöðurnar leiddu í ljós að 62% barna fara fótgangandi í skólann, 23% með einkabíl, 7% á hjóli og 7% með strætó/skólabíl. Þegar niðurstöðurnar eru bornar saman við sambærilega mælingu frá því í vor má sjá að fleiri börn hjóluðu í skólann í vor (19%) en nú (7%). Hins vegar fara fleiri gangandi í skólann nú að hausti (62%)  en sl. vor  54% í maí.

Hvernig fóru fullorðnir í vinnuna?

„Með hvaða hætti ferðast þú að jafnaði til vinnu eða skóla á morgnana?“ 67% fullorðinna fara á bíl sem bílstjórar í vinnu eða skóla á morgnana og 7% sem farþegar í bíl, 13% fara gangandi, 7% með strætó, 6% á hjóli. Vorið 2016 fóru 65% á bíl, 7% sem farþegar, 10% fótgangandi, 10% í strætó og 8% á hjóli.

Draga má þá ályktun í heild, þegar vorkönnun 2016 og haustkönnun 2016 eru bornar saman, að þau sem ganga til vinnu eða skóla á haustmisseri skipta gjarnan yfir á hjól þegar það fer að vora. Könnunin er gerð í tengslum við mælikvarða um samgöngur í umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar. Umhverfis- og skipulagssvið gerir einnig reglulega viðameiri og ítarlegri könnun á ferðavenjum Reykvíkinga í samstarfi við Vegagerðina.

Sumargötur vinsælar 

Tvær aðrar spurningar frá umhverfis- og skipulagssviði fylgdu með í þessum spurningavagni Gallup, önnur um viðhorf til sumargatna og hin um útivistarsvæði.

7 af hverjum 10  borgarbúum  eru jákvæðir gagnvart göngugötum/sumargötum í miðborg Reykjavíkur, 16% eru neikvæðir og 14% hvorki jákvæðir né neikvæðir. Árið 2015 voru 73% borgarbúa jákvæðir og árið 2014 voru það 75%.

Laugardalurinn mest sóttur

Einnig var spurt „Hefur þú heimsótt neðangreind útivistarsvæði Reykjavíkurborgar á sl. 12 mánuðum (sjá töflu) og þá kemur í ljós að Laugardalurinn nýtur mestra vinsælda en 63% aðspurða höfðu heimsótt hann, 62% Tjörnina og næst á eftir koma Elliðaárdalur, Nauthólsvík, Klambratún og Heiðmörk.

Tengill

Ferðir til og frá skóla/vinnu - rannsókn