Börn af leikskólanum Heiðarborg heimsækja borgarstjóra

Skóli og frístund Mannlíf

""

Fjögur börn af leikskólanum Heiðarborg í Árbæ heimsóttu borgarstjóra í Ráðhús Reykjavíkur í morgun. Þau afhentu honum bréf þar sem þau greindu frá óskum sínum um lagfærinar á leiktækjum á lóð leikskólans.

Þau Vigdís Sól, Katrín Ása, Lilja Þöll og Bragi Kristján voru í fylgd Ernu Magnúsdóttur leikskólakennara af leikskólanum Heiðarborg. Börnin voru spennt að hitta borgarstjóra, og voru með stórt umslag merkt honum sem þau ætluðu að afhenda Degi, en í því var bréf þar sem þau óskuðu eftir úrbótum á lóð leikskólans. 

Dagur tók á móti börnunum á skrifstofu sinni og bauð þeim upp á hressingu eftir ferðalagið úr Árbæ. Þau spjölluðu dágóða stund og ræddu um hin ýmsu mál. Þau vildu fá að vita hvor B-ið í nafninu hans stæði fyrir Borgarstjóri, hvaða liði hann héldi með í ensku deildinni og hvað hann ætti mörg börn. 

Nokkur eru að byrja í Árbæjarskóla í haust og Dagur sagði þeim að hann hefði líka verið í Árbæjarskóla. Bragi Kristján sagðist vera að æfa fótbolta með Fylki og þá sagðist borgarstjóri halda með Fylki. Þetta vakti mikla kátínu hjá krökkunum.

Borgarstjóri las svo bréfið upphátt og ræddi við krakkana um þeirra óskir og sagðist ætla að skoða málið. Að því loknu kvöddu börnin borgarstjóra og fóru með strætó aftur upp á Heiðarborg.