Borgarstjóri opnaði jöklasýningu Perlunnar með keðjusög

Mannlíf Menning og listir

""

Íshellir og jöklasýning Perlu norðursins var opnuð formlega í gær þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagaði í gegnum ísklump með keðjusög inni í nýjum manngerðum ísgöngum sem staðsett eru í einum af hitaveitugeymum Perlunnar.

 Um er að ræða opnun fyrsta hluta stærstu náttúrusýningar af þessu tagi og er ráðgert að annar og síðasti hluti sýningarinnar opni í maí á næsta ári.

Perlan hefur öðlast nýtt hlutverk
„Perlan er frábært hús sem núna hefur fengið verðugt hlutverk en hugmyndin um náttúrusýningu í Perlunni spratt og var borin fram af grasrót þeirra sem una náttúru Íslands,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri við opnunina. „Það er mér mikill heiður sem borgarstjóri að fá að taka þátt í þessu verkefni, sem hefur einkennst öðru fremur af ótrúlega góðu samstarfi hönnuða sýningarinnar og akademíunnar. Að auki fá öll reykvísk skólabörn að heimsækja sýninguna tvisvar á skólagöngunni þannig að þetta er sýning sem mun nýtast vel til fræðslu og miðlunar. Það var kominn tími til að færa þessu fagra húsi jafn verðugt hlutverk og felst í því að miðla þekkingu um undur landsins okkar til gesta Perlunnar sem geta um leið notið útsýnis yfir heila höfuðborg og íslenska náttúru.“

Frábærar móttökur
Nú þegar hafa um 14.000 manns lagt leið sína á sýninguna en þann 30. júní lauk foropnun þar sem Íslendingum og öðrum bauðst að skoða sýninguna fyrir eina krónu. Forsvarsmenn Perlu norðursins eru himinlifandi yfir móttökunum og segir Agnes Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Perlu norðursins að sýning sé aðeins brot af því sem koma skal.

„Við hjá Perlu norðursins erum virkilega ánægð með að geta loksins veitt Íslendingum og öðrum innsýn inn í þann fagra heim sem jöklarnir okkar eru. Við leggjum fyrst og fremst áherslu á að gestir, bæði ungir og aldnir geti skemmt sér á sýningunni og ekki síður fræðst um þau náttúruundur sem Ísland hefur upp á að bjóða. Perlan, eitt höfuðtákn Reykjavíkur var því fullkominn staður fyrir þetta hlutverk og það gefur augaleið að þetta verkefni hefði ekki orðið að veruleika ef ekki hefði verið fyrir alla þá aðila sem að því komu, þá sérstaklega Reykjavíkurborg,“ segir Agnes að lokum.

Sýningin Jöklar og íshellir
Aðstandendur sýningarinnar þróuðu aðferð til að smíða nákvæma eftirmynd af íshelli sem grafinn er í gegnum jökul. Á leið sinni í gegnum hellinn fá gestir tækifæri til að fræðast um hætturnar sem leynast í jöklunum, leyndarmálin sem þeir geyma og hversu stórkostleg áhrif bráðnun jökla hefur á Ísland og heiminn allan. Við enda hellisins tekur við stigi sem leiðir þig upp á aðra hæð í geyminum, á tind Vatnajökuls með 360° útsýni til allra átta. Þar er sagt frá jöklum Íslands, áhrifum þeirra á landið og hvað mun gerast ef fram fer sem horfir og jöklarnir hverfa.

Perla norðursins
Perla norðursins stendur fyrir metnaðarfullri og nútímalegri náttúrusýningu sem miðlar upplýsingum um náttúru Íslands, sérkenni hennar og þróun, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd og vistfræði Íslands í alþjóðlegu samhengi. Sýningin Jöklar og íshellir er fyrsti hluti náttúrusýningarinnar í Perlunni og er áætlað að annar hluti hennar opni 1. maí 2018 þar sem einblínt verður á landið, ströndina, hafið og norðurljósin.

Á perlanmuseum.is er hægt að finna frekari upplýsingar um Perlu norðursins og náttúrusýningarnar.