Borgarstjóri heimsækir Hitt húsið og sambýlið í Vættarborgum

Velferð Skóli og frístund

""

Jón Gnarr borgarstjóri fór í síðustu viku og heimsótti fötluð ungmenni sem eru annars vegar í frístundastarfi hjá Hinu Húsinu og svo íbúa á sambýlinu í Vættarborgum í Grafarvogi. 

Í Hinu húsinu var mikil stemning, búið var að baka og hella upp á kaffi og var vel tekið á móti borgarstjóra. Fötluð ungmenni á aldrinum 16 til 20 ára, sem stunda nám á starfsbrautum framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu, er boðið upp skipulagt frístundastarf eftir að skóla lýkur í Hinu húsinu.

Markmið starfsins er að styðja ungmennin til sjálfstæðis og auka félagslega færni þeirra. Með starfinu er lögð áhersla á eflingu sjálfstrausts, sjálfstæðis og samkenndar með öðrum, sem og skemmtilegan frítíma sem ungmennin taka þátt í að skipuleggja. Borgarstjóri spjallaði við ungmennin og varð þeim tíðrætt um Vakta þættina svokölluðu og Georg Bjarnfreðarson. 

Þá heimsótti borgarstjóri sambýli fyrir fatlaða einstaklinga í Vættarborgum. Í húsinu búa 6 manns á aldrinum 21 til 35 ára. Jón Gnarr skoðaði húsnæðið og heilsaði meðal annars upp á Ólafíu, Írisi og Fífu sem allar búa í íbúðum á sambýlinu. Að lokinni skoðunarferð var boðið upp á kökur og kaffi og gáfu íbúar borgarstjóra listaverk að gjöf, hreindýrshaus úr áli, sem íbúarnir eru að hanna í samstarfi við starfsmenn.