Borgarstjóri flytur skrifstofuna um set í miðborginni

Mannlíf Stjórnsýsla

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur flutt skrifstofu sína tímabundið úr Ráðhúsinu í Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar, Hlíða sem staðsett er að Laugavegi 77. Verður borgarstjóri þar út þessa viku. Þriðjudaginn 21. mars verður síðan haldinn íbúafundur með borgarstjóra í Tjarnarsal Ráðhússins. 

Undanfarna daga hefur borgarstjóri gert víðreist um hverfið. Hann fundaði með yfirstjórn borgarinnar í Austurbæjarskóla á mánudag og heimsótti skólann í kjölfarið. Í gær átti hann fundi með foreldrafélögum skólanna í miðborginni auk þess sem hann hitti Valsmenn á fundi í Spennistöðinni við Austurbæjarskóla.

Í dag hefur hann heimsótt Tækniskólann á Skólavörðuholti, leikskólann Grænuborg þar sem hann fundaði einnig með leikskjólastjórum í hverfinu, heimsótt Gistiskýlið á Lindargötu og starfsfólk í heimahjúkrun á Vitatorgi. Síðar í dag mun borgarstjóri síðan sækja harmonikkuball með eldri borgurum á Vitatorgi.

Þetta er í áttunda sinn sem borgarstjóri færir sig um set innan borgarinnar hann var í Vesturbænum í nóvember á síðasta ári og þetta er fyrsta hverfaheimsóknin á þessu ári.

Þriðjudaginn 21. mars verður svo haldinn opinn hverfafundur með íbúum í hverfinu í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur kl. 20. Til umræðu á fundinum verður allt sem tengist hverfinu, framkvæmdir og þjónusta en mesta áherslan verður á ferðaþjónustuna í miðbænum. Sjá viðburð