Borg hjólandi vegfarenda

Samgöngur Umhverfi

""

Hjólaborgin verður í öndvegi á Kjarvalsstaðafundi um hjólreiðamenningu í Reykjavík þriðjudaginn 14. mars kl. 20. Spurt verður: Hvernig þróum við hrífandi borg fyrir hjólandi vegfarendur?

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur ásamt Hjálmari Sveinssyni, formanni umhverfis- og skipulagsráðs fyrir fundarröðinni Borgin, heimkynni okkar, sem er um umhverfis- og skipulagsmál. Næsti fundur á Kjarvalsstöðum fjallar um borg fyrir hjólandi vegfarendur #hjolaborgin 

Fundurinn í febrúar um borg gangandi vegfarenda var mjög vel heppnaður og fjölsóttur.

Gestir fundarins eru Eva Dís Þórðardóttir skipulagsfræðingur hjá EFLU og stjórnarmaður í Vistbyggðaráði, Emil Þór Guðmundsson hjólreiðamaður og eigandi Kría Hjól - hjólaverkstæði og verslun og Gígja Gunnarsdóttir íþrótta- og heilsufræðingur hjá Embætti landlæknis, ásamt Hjálmari Sveinssyni. Þau munu spá í hjólaborgina út frá nokkrum sjónarmiðum m.a. borgarbrag, fjölbreytni, heilsu og sjálfbærni og bera hana saman við aðrar hjólaborgir.

Hjólreiðakerfið tengir hverfin

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 segir að borgin hafi því mikilvæga hlutverki að gegna á Íslandi að vera fyrirmynd við eflingu hjólreiða. Hjólreiðar eru ódýr og þægilegur ferðamáti sem gerir fólki kleift að komast tiltölulega hratt á milli staða. Hjólaleiðakerfið tengir öll hverfi borgarinnar og nær jafnframt að sveitarfélagamörkum. Þar sem hjólreiðafólk velur sér yfirleitt stystu leið á ferðum sínum er rökrétt að hjólaleiðir fylgi gatnakerfi borgarinnar í auknum mæli. Við endurhönnun stofn- og tengibrauta og lykilgatna innan hverfa verði þarfir hjólandi ávallt í fyrirrúmi.

Hjólreiðaáætlun 2015-2020 var samþykkt í borgarstjórn í október 2015. Meginmarkmið með áætluninni er að auka hlutdeild hjólreiða í ferðum innan borgarinnar í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur. Góðar aðstæður til hjólreiða í Reykjavík gefa borgarbúum tækifæri til að sinna erindum sínum og njóta útivistar á greiðan og öruggan hátt.

Lögð er áhersla á að skapa góðar, samfelldar hjólaleiðir fyrir þá sem ferðast á hjólum milli hverfa borgarinnar á leið í og úr vinnu og skóla. Áframhaldandi uppbygging verður á hjólaleiðum og hjólastæðum í borginni m.a. til að fjölga þeim sem hjóla.

Í fundaröðinni í vetur hefur verið fjallað um fagurfræði, skapandi borg, útivist, og borg gangandi vegfarendur en þessi fundur er sá 14. í röðinni. Hægt er að horfa á fundina á Netsamfélagid.is

Fundirnir eru mjög vel sóttir

 

Markmiðið með fundaröðinni er að færa umræðu um skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi. Leitað er eftir gagnrýnni og hressilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið og reynsluheimar mætast á málefnalegum grunni. Aðferðin felst í því að greina og opna fyrir möguleika og að fólk haldi áfram að hugsa málin eftir fundina.

Fundirnir eru mjög vel sóttir, bæði af fagfólki og áhugafólki um skipulag og umhverfi borgarinnar og síðan eftir því hvert umræðuefnið er. Rætt er á mannamáli út frá skemmtilegum sjónarhornum um brýn efni. Boðið er upp á kökur og kaffi og reynt að skapa kaffihúsastemningu. Verið velkomin þriðjudaginn 14. mars kl. 20. #hjolaborgin

Tenglar

Facebook viðburður

Hjólaborgin

Veggspjald um hjólaborgina

Aðalskipulag - vistvænar samgöngur

Hjólreiðaáætlun 2015-2020