Boltinn léttir lundina

Velferð

""

Tvö fótboltalið frá velferðarsviði, FC-Pink og Bríó, tóku þátt í sumarmóti FC-Sækó og starfsmanna geðsviðs Kleppsspítalans.

Sumarmót FC Sækó og geðsviðs Kleppsspítalans var haldið í mildu veðri á túninu við Klepp í vikunni. Öll liðin eru skipuð notendum og starfsmönnum í geðgeiranum og er markmiðið alltaf að hafa gleði og gaman af og að sjálfsögðu er keppnisandinn líka mikill.

Liðin sem tóku þátt í ár voru Bríó, frá búsetukjarnanum við Bríetartún, Laugarás Molarnir, RÖK, Svörtu ekkjurnar, Bata-SEG, VHG, FC-Pink , skipuð leikmönnum frá Skrifstofu velferðarsviðs og FF-Múrbrjótar sem komu alla leið frá Akureyri til að taka þátt í mótinu.

Spilað var í tveimur riðlum og tvö efstu lið komust áfram í undanúrslit. Bata-SEG, VHG, Svörtu Ekkjurnar og Laugarás Molarnir voru í Riðli A og endaði VHG í efsta sæti og Bata-SEG í öðru sæti. Í B- riðli var Bríó í efsta sæti og RÖK í öðru sæti.

Í fyrri leik í undanúrslitum mættust VHG - RÖK og Bríó – Bata-SEG í þeim síðari. Báðir leikirnir voru gríðarlega spennandi þar sem fyrri leikurinn vannst með einu marki og úrslit síðari leiksins voru útkljáð í vítaspyrnukeppni.

Það fór svo að VHG og Bata-SEG léku til úrslita á mótinu og endaði sá leikur með sigri VHG. Verðlaun voru einnig veitt fyrir bestu búningana þar sem FF- Múrbrjótar þóttu bera af en titilinn besta stuðningsliðið fengu FC-Pink frá Skrifstofu velferðarsviðs.

Þetta var í fjórða skipti sem FC-Sækó og starfsmenn geðsviðs Kleppsspítala standa að svona sumarmóti og þrjú síðustu ár hefur dómari frá KSÍ dæmt leikina auk þess sem starfsmenn frá sambandinu hafa séð um að strika völlinn.

Aðstandendur sumarmótsins vilja þakka áhorfendum og þeim sem komu að undirbúningi mótsins og hlakka til að endurtaka leikinn að ári.