Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2016

Mannlíf Menning og listir

""

Eyrún Ósk Jónsdóttir  hlaut í dag Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2016 fyrir ljóðahandritið  Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti verðlaunin sem nema 700 þúsund krónum. Fyrstu eintök af bókinni komu um leið úr prentun í útgáfu Bjarts.

Eyrún Ósk Jónsdóttir á baki feril sem rithöfundur, leikari og leikstjóri. Hún hefur skrifað fjölda leikrita sem hafa verið sett upp í leikhúsum hérlendis og erlendis auk þess hefur hún skrifað kvikmyndahandrit. Eyrún hefur áður sent frá sér þrjár skáldsögur og tvær ljóðabækur.  Eyrún lauk meistaragráðu í fjölmiðlun og þróunarfræðum frá Winchester University á Englandi árið 2007. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í evrópskri leiklist og handritagerð frá Rose Bruford College á Englandi árið 2005. Árið 2014 vann hún einleikjasamkeppni Act Alone með leikritinu Doría sem hún skrifaði ásamt Helga Sverrissyni, og nú í mars vann hún örleikjasamkeppni Uppsprettunnar með leikritinu Leikkonan og Fíflið.

Alls bárust 52 óbirt ljóðahandrit undir dulnefni. Dómnefndina skipuðu Úlfhildur Dagsdóttir formaður, Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir og Bjarni Bjarnason.  Verðlaunabókin fæst að sögn dómnefndar við heim hinna óskrifuðu reglna. Að baki bókinni liggja spurningar eins og; hverjar eru hinar óskráðu reglur, hver setti þær, hvernig eru þær hugsaðar, hvaða refsing liggur við að brjóta þær og hve mikið er að marka þær?
Dómnefndin var einhuga um að ljóðin töluðu með ferskum hætti inn í hversdagleika okkar Íslendinga og opnuðu augu okkar með ljóðrænum, hugvitsamlegum og frumlegum hætti fyrir dularfullum mörkum einkalífs og opinbers lífs og væru því afar vel að Bókmenntaverðlaunum Tómasar Guðmundssonar komin.