Bioblitz í Reykjavík hefst um helgina

Mannlíf Umhverfi

""

Viltu gerast náttúrufræðingur? Hvaða lífverur leynast í borginni okkar? Komdu með og kannaðu málið.  

Í sumar ætla Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands að taka höndum saman og stofna til sérstaks fræðsluverkefnis um lífríki borgarinnar sem heitir Bioblitz í Reykjavík. Bioblitz er alþjóðlega þekkt hugtak sem felur í sér þátttöku og samstarf almennings og sérfræðinga með það að markmiði að finna, greina og skrá tegundir dýra, plantna og annarra lífvera á tilteknum svæðum. Þannig safnast gagnlegar og áhugaverðar upplýsingar um útbreiðslu tegunda og líffræðilega fjölbreytni en einnig gefst tækifæri fyrir almenning að uppgötva og læra að þekkja lífríkið í sínu nánasta umhverfi. Allir geta tekið þátt!

Hvernig getur maður tekið þátt í verkefninu?

Opnuð hefur verið sérstök vefsíða Bioblitz þar sem þátttakendur geta skráð þær tegundir sem á vegi þeirra verða, skráð staðsetningu og sett inn og skoðað ljósmyndir. Tegundirnar eru flokkaðar í helstu lífveruhópa svo sem plöntur, fugla, spendýr, skordýr o.s.f.v. Vefsíðan er upplögð fyrir áhugasama náttúru- og lífríkisunnendur og er tilvalin fyrir skólahópa til að vinna verkefni um lífverur í nærumhverfinu. Vefsíðan er notendavæn fyrir snjallsíma þ.a. hægt er að setja inn nýjar skráningar á vettvangi.

Fyrst um sinn verður Elliðaárdalurinn í aðalhlutverki og í sumar verður því boðið upp á sérstaka fræðsluviðburði í Elliðaárdal. Elliðaárdalur er eitt stærsta náttúru- og útivistarsvæðið innan þéttbýlis í Reykjavík og þar er mikil fjölbreytni af alls konar lífverum. Sérfræðingar munu leiða viðburðina, veita fróðleik og aðstoða þátttakendur við að finna og greina tegundir og skrá þær. Viðburðirnir verða þrír og mun hver viðburður einblína á tiltekinn lífveruhóp – fyrst plöntur, þá fugla og loks skordýr og önnur smádýr.

Viðburðirnir þrír

 
Fyrsti viðburðurinn verður laugardaginn 24. júní kl 11. Hist verður við Rafstöðina í Elliðaárdal nálægt nýju hjóla- og göngubrúnni yfir Elliðaárnar. Plöntur svæðisins verða skoðaðar og greindar en mikil tegundafjölbreytni er á þessu svæði og margs konar gróðurlendi að finna.

Annar viðburðurinn verður laugardaginn 8. júlí kl 11. Þá verður farið í fuglaskoðun. Hist verður við Árbæjarkirkju og fylgst með fuglalífinu í ofanverðum Elliðaárdal.

Þriðji viðburðurinn verður sunnudaginn 23. júlí kl 11. Þá er komið að skordýrum, áttfætlum og öðrum smádýrum. Hist verður bak við Rafstöðina í Elliðaárdal og farið á pödduveiðar.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Bioblitz Reykjavík  og á Facebook síðu Bioblitz:

Verkefnastjórar Bioblitz í Reykjavík eru Snorri Sigurðsson líffræðingur hjá Reykjavíkurborg sem stýrir m.a. fræðslusíðunni Reykjavík iðandi af lífi , Bryndis Marteinsdóttir plöntuvistfræðingur hjá Háskóla Íslands / Landgræðslunni og Freydís Vigfúsdóttir fuglafræðingur hjá Háskóla Íslands.

Ef óskað er eftir frekari upplýsingum má senda línu á Snorra Sigurðsson eða hafa samband í síma: 411-8535 / 823-5339.