Betur gengur að ráða inn á leikskólana

Skóli og frístund

""

Staðan er betri nú en í nóvember því einungis er ómannað í  2,17% stöðugilda í leikskólum borgarinnar. 

Samkvæmt könnun sem gerð var meðal stjórnenda í skóla- og frístundastarfi borgarinnar í byrjun desember eru 40 af 62 leikskólum fullmannaðir en í 22 leikskóla vantar samanlagt rösklega þrjátíu starfsmenn, í flestum tilvikum í hálfa stöðu. Staðan er betri nú en í nóvember því einungis er ómannað í 2,17% stöðugilda í leikskólum borgarinnar ef miðað er við heildarfjölda  þeirra, en fyrir mánuði átti eftir að ráða í 3,96% stöðugildi.

Á haustmánuðum hafa alls 23 leikskólar af 62 leikskólum borgarinnar þurft að grípa til einhverra skerðinga á þjónustu vegna fáliðunar. Umfangið er afar mismunandi milli skóla bæði hvað varðar skertan opnunartíma og fjölda barna. Í sumum tilfellum hefur skerðingin náð til 3-5 barna en í öðrum tilfellum einnar deildar í senn. Í byrjun desember voru 12 leikskólar með skertan opnunartíma og í flestum tilvikum voru börnin sótt kl. 16.30 í stað 17.00.

Staðan betri í grunnskólum og frístundastarfinu

Í 34 grunnskóla borgarinnar vantar 4 kennara, 6 stuðningsfulltrúa, 9 skólaliða og 2 starfsmenn í mötuneyti. Þetta er um 1,13% allra stöðugilda í skólunum.

Á frístundaheimilin og í sértækar félagsmiðstöðvar vantar 70 starfsmenn í hálf störf, þar af 9 í störf með fötluðum börnum og ungmennum. Þriðjungur frístundaheimilanna eru fullmönnuð.

6. desember 2017 hafði verið sótt um dvöl á frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum fyrir 4.309 börn, af þeim eru 4.253 komin með vistun og njóta börn með sérþarfir og yngstu börnin forgangs. Önnur eru tekin inn í samræmi við umsóknartíma. 44 börn bíða enn eftir því að komast inn á frístundaheimili.