Betri Reykjavík og Hverfið mitt í 2. -3. sæti hjá Eurocities

Stjórnsýsla Betri hverfi

""

Íbúasamráðsvefurinn Betri Reykjavík og íbúalýðræðisverkefnið Hverfið mitt voru tilnefnd sem eitt af þremur efstu verkefnunum af 14 sem gætu unnið Green Digital Charter verðlaunin í flokknum Íbúaþáttaka og áhrif á samfélagið (Citizen participation and impact on society.)

Verkefnið sem hreppti verðlaunin að þessu sinni var Borgarakortið í Zaragosa en það er snjallkort af nýjustu gerð sem veitir aðgang að alls konar þjónustu í borginni, t.a.m. almenningssamgöngum, söfnum og bókasöfnum o.fl. Betri Reykjavík og Hverfið mitt lentu því í 2. - 3. sæti.

Green Digital Charter eru félagsskapur evrópskra borga sem nota snjall- og upplýsingatækni til að vinna gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda og miðla tæknilausnum sem vinna gegn loftslagsáhrifum.

Verkefnið sem hreppir verðlaunin þykir hafa tekist best að fá borgarana eða aðra aðila í samfélaginu til að taka þátt í einhvers konar samfélagsbreytingum með nýjungum sem ná til almennings.

Íbúalýðræðisverkefnin Betri Reykjavík og Hverfið kepptu við áðurnefnt snjallkort í Zaragossa og gagnvirkan ábendingavef um umferðarljós sem borgaryfirvöld í Utrecht í Hollandi hafa sett upp til að draga úr notkun óþarfra umferðarljósa til að auðvelda hjólreiðar en í Utrecht hjóla hundrað þúsund manns að jafnaði um borgina á degi hverjum.

Magnús Yngvi Jósefsson verkefnisstjóri snjallborgar og alþjóðaumsókna hjá Reykjavíkurborg tók við viðurkenningu fyrir góðan árangur við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Microsoft í Brussel nú í vikunni.

Betri Reykjavík hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar síðan verkefninu var hleypt af stokkunum árið  2011. Þess má geta að vefurinn er tilnefndur sem Vefapp ársins hjá Samtökum vefiðnaðarins 2017. 

Viðurkenningar Betri Reykjavíkur

  • World e-Gov Forum eDemocracy awards - 13. október 2011
  • Róbert Bjarnason og Gunnar Grímsson valdir „Geeks of the Year in Iceland“ fyrir Betri Reykjavík- 21. janúar 2012
  • SVEF (Íslensku vefverðlaunin -  3. Febrúar 2012 for 2011
  • „Frumlegasti vefurinn og athyglisverðasti vefurinn“
  • Betri Reykjavík fær Nexpo vefverðlaunin á Íslandi sem bjartasta vonin - 27. janúar 2012 for 2011
  • „Innovation awards for public administration for Better Reykjavík - 2012
  • Nordic Best Practice Challenge prize for Better Neighborhoods - 7. - 8. Maí 2015
  • Nominet Trust 100 List - 2016
  • Green Digital Charter – Eurocities tilnefning – 2.-3. sæti 2017
  • SVEF tilnefning fyrir Vefapp Ársins  2017

Betri Reykjavík