Betri Reykjavík gerir heiminn betri

Betri hverfi Stjórnsýsla

""

Samfélagsvefurinn Betri Reykjavík hefur verið valin í NT100 og er þar með komin í félagsskap hundrað nýrra tæknilausna sem taldar eru stuðla að jákvæðum félagslegum breytingum í heiminum.

Nominet Trust (NT) gegnir mikilvægu hlutverki í  útbreiðslu á tækni sem hefur sannað sig sem samfélagslega jákvæð.  Listinn var kynntur á árlegri samkomu NT100 í London 14. desember en þar koma saman frumkvöðlar, frjáls félagasamtök, góðgerðarfélög og tæknifólk sem deila þekkingu, reynslu og færni til að kynna verkefni á heimsvísu.

,,Það er mikill heiður að vera valinn á þennan lista,” segir Róbert Bjarnason, framkvæmdastjóri hjá Íbúum sjálfseignarstofnun sem skapaði Betri Reykjavík í náinni samvinnu við Reykjavíkurborg.  ,,Betri Reykjavík hefur nú þegar orðið hvati að svipuðum verkefnum í yfir 20 löndum og vonandi á þessa nýja athygli eftir að hjálpa til við að dreifa þessari hugmynd enn víðar. Hugbúnaður Betri Reykjavíkur er opinn hugbúnaður sem verður öflugri eftir því sem fleiri lönd og borgir nota hann.”

Betri Reykjavík er samráðsvettvangur á netinu þar sem íbúum gefst tækifæri til að setja fram hugmyndir sínar um málefni er varða þjónustu og rekstur Reykjavíkurborgar.  Í ár var metþátttaka í hugmyndasöfnun fyrir Hverfið mitt 2016, þar sem sendar voru inn 915 hugmyndir. Sjálfseignarstofnunin Íbúar Samráðslýðræði rekur Betri Reykjavík í samstarfi við Reykjavíkurborg. Þátttaka í rafrænum kosningum var líka sú besta frá upphafi.

NT100 listinn í Bretlandi er í samstarfi við Nominet Trust, Big Lottery Fund, Oxfam, Cancer Research UK, Oxford University og fleiri. NT100 verkefnin fyrir árið 2016 eru aðgengileg á Social Tech Guide  sem er stærsti gagnvirki gagnagrunnur heimsins fyrir tækni til góðs.

Social Tech Guide

Betri Reykjavík