Barnamenningarhátíð í Reykjavík

Skóli og frístund Menning og listir

""

Jón Gnarr borgarstjóri setti í dag Barnamenningarhátíð ásamt 1.400  4. bekkingum úr grunnskólum Reykjavíkur.  Hann sagði að ef  einhvern langaði til að búa til sinn eigin flugdreka, læra að rappa, leika trúð eða smíða varðskip þá yrði það meðal þess sem í boði er á Barnamenningarhátíðinni. 

Eldborgarsalurinn í Hörpu iðaði af lífi og fjöri við setningarathöfnina sem slagverkshópur úr Sinfóníuhljómsveit hóf dagskrá með óvenjulegum trommuslætti.

Ofurhetjurnar Óður og Flex sýndu dans og börnin tóku þátt í frumflutningi á nýju popplagi sem Dr. Gunni samdi sérstaklega fyrir tilefnið og flutti ásamt Möggu Stínu, Friðriki Dór. Þetta var lagið 112 sem minnti á neyðarnúmerið.

Lögreglu- og slökkviliðsmenn ásamt félögum í björgunarsveitinni Ársæli tóku einnig þátt í atriðinu.

Við opnunarhátíðina í Eldborgarsalnum var Laufásborg veittur menningarfáninn fyrir metnaðarfullt liststarf með börnum.

Síðdegis var svo komið að leikskólabörnum borgarinnar að sýna lifandi barnamenningu á stóra sviðinu í Eldborg. Þau sungu þar barnalög eftir Jón Þórarinsson undir stjórn Elfu Lilju Gísladóttur og einnig kom Hamrahlíðarkórinn og söng fyrir þau nokkur lög. 

Allt um Barnamenningarhátíð á www.barnamenningarhatid.is  en hátíðin stendur til og með 4. maí.