Austurríkismenn kynna sér lausnir í Reykjavík

Stjórnsýsla Velferð

""
Nær fjörutíu manna hópur frá héraðinu Vorarlberg í Austurríki var staddur hérlendis fyrir stuttu til að kynna sér land og þjóð. Hópurinn óskaði eftir kynningu hjá Reykjavíkurborg um velferðarmál og lýðræðisþátttöku.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók á móti hópnum í Höfða 15. september sl. en hópurinn fékk síðan fyrirlestra frá sérfræðingum borgarinnar í velferðarmálum og lýðræðisþátttöku. 
 
Vorarlberg er sambandsland í Austurríki með um 370 þúsund íbúa og í sendinefndinni voru fjölmargir borgarstjórar, ráðherra, þingforseti og aðrir fulltrúar landsþingsins, auk starfsmanna sveitarfélaga og stjórnsýslu landsins.
 
Hilmar Hildar Magnúsarson, alþjóðafulltrúi Reykjavíkurborgar, skipulagði móttökuna í samræmi við óskir gestanna.  Fjallað var um heimilisaðstoð, lýðræðisverkefnið Betri Reykjavík, innflytjendur, flóttamenn, atvinnuleysi og fjárhagsaðstoð.
 
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bauð hópinn velkominn í Höfða og sagði nokkur orð um velferðarkerfi borgarinnar.
 
Margrét Guðnadóttir teymisstjóri heimahjúkrunar fjallaði um heimahjúkrun hjá Reykjavíkurborg. Edda Ólafsdóttir frá mannréttindaskrifstofu fjallaði um innflytjendur og flóttafólk og Þóra Kemp deildarstjóri hjá velferðarsviði fjallaði um atvinnuleysi og fjárhagsaðstoð.
 
Sonja Wiium, verkefnisstjóri Betri Reykjavíkur hjá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara kynnti lýðræðisþátttökuverkefnin Betri Reykjavík og rafrænar íbúakosningar í hverfum borgarinnar. 
 
Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri frístundamála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar tók síðar um daginn á móti hópnum á frístundamiðstöðinni Kringlumýri og kynnti frístundastarf í borginni. 
 
Ferð Austurríkismannnanna var skipulögð af stofnuninni IFS (Institute for Social Services (Institut für Sozialdienste www.ifs.at) og sambandi sveitarfélaga  í Vorarlberg.
 
Með í för voru forstjóri IFS, Stefan Allgäuer, Harald Sonderegger, forseti fylkisþings Vorarlbergs, Katharina Wiesflecker, ráðherra velferðarmála fylkisþingsins og forseti samtaka sveitarfélaga og borgarstjórinn Harald Köhlmeier . 
 
Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður tók á móti hópnum á Alþingi fyrir hönd velferðarnefndar þingsins og kynnti fyrir þeim félagslega kerfið á Íslandi og málefni aldraðra.
 
Hópurinn heimsótti einnig Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélagið Árborg í heimsókn sinni til Íslands.