Aukin stoðþjónusta við fötluð ungmenni

Velferð

""

Borgarráð hefur samþykkt að bæta við átta nýjum rýmum í vinnumiðaðri stoðþjónustu svo að ekki komi rof í þjónustukeðju fyrir fötluð ungmenni.

Reykjavíkurborg hefur á undanförnum árum byggt upp öfluga þjónustukeðju fyrir börn og ungmenni meðal annars með tilkomu lengdrar viðveru fyrir fötluð börn á aldrinum 10 – 20 ára. Við útskrift úr framhaldsskóla við 20 ára aldur verða ákveðin tímamót í þjónustu þar sem að vinnumiðuð stoðþjónusta þarf að taka við fyrir þann hóp sem þarf á hæfingartengdri þjónustu að halda.  Viðbótin nú er til að hægt sé að tryggja þeim ungmennum sem útskrifast í vor þjónustu við hæfi.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar rekur í dag tvo starfsstaði sem sinna vinnumiðaðri stoðþjónustu en það eru  Iðjuberg og Gylfaflöt.  Markmiðið er að skapa fötluðu fólki með skerta starfsgetu aðstöðu sem sniðin er að þörfum þess og stuðlar að auknum tækifærum til fullrar þátttöku á eigin forsendum.  Í Gylfaflöt og Iðjubergi er unnið að mörgum skemmtilegum verkefnum en flestir þekkja þær vörur sem framleiddar eru í Smiðjunni í Gylfaflöt og hafa þær notið vinsælda.

Velferðarsvið er einnig með samning við Ás styrktarfélag um vinnu og virkni úrræði og Ásgarð handverkstæði.  Í boði eru afar fjölbreytt viðfangsefni allt frá verndaðri vinnu til hæfingartengdra verkefna.