Augun mín hafa svo margt að segja

Mannlíf Mannréttindi

""

Sýning nemenda í Klettaskóla var opnuð í Ævintýrahöllinni í Ráðhúsinu í dag en verkin hafa þau málað með augunum með sérstökum hugbúnaði. 

Í Klettaskóla hafa tíu nemendur í vetur verið að læra að stjórna tölvumús með augunum og nota sérstakan hugbúnað í skapandi starfi. Nemendur eru á öllum aldursstigum skólans og eiga það sameiginlegt að tjá sig ekki með orðum. Þau hafa gert ótrúlega litrík myndlistarverk með þessari augnstýritækni og hanga þau nú uppi í Ráðhúsinu og gleðja augað. Við hverja mynd er hægt að opna forrit með QR-kóða og skoða hvernig myndin varð til hjá hinum ungu listamönnum. Þessi nýja tækni veitir börnum með sérþarfir nýja möguleika til að tjá sig og vinna á skapandi hátt eins og sjá má á sýningunni.  

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði sýninguna í dag en hún er einn af fjölmörgum viðburðum á Barnamenningarhátíð sem nú stendur yfir. Þá kom tónlistarmaðurinn Friðrik Dór og skemmti listamönnunum og gestum við opnunina.