Augnstýring skapar ný tækifæri fyrir börn í Klettaskóla

Skóli og frístund

""

Í Klettaskóla eru tíu nemendur að læra að stjórna tölvumús með augunum. Nemendur eru á ýmsum aldri og eiga það sameiginlegt að geta ekki tjáð sig með orðum. Nokkrir nemendur hafa augnstýribúnað sem þeir nota heima en flestir eru enn í þjálfun til að fá úr því skorið hvort þessi búnaður henti þeim sem tjáskiptaleið.

Ýmsar leiðir eru farnar til að kenna börnunum að stjórna músinni með augunum. Ein er sú að nota leiki sem gefa góða svörun. Þannig er hægt að þjálfa upp færni en leikirnir þyngjast og krefjast meiri nákvæmni og rökhugsunar eftir því sem á líður. Fjölbreytt tjáskiptaforrit gefur nemendum tækifæri til að tjá sig og hafa áhrif á það sem þeir gera.

Mikilvægt er að finna áhugasvið sérhvers nemanda og kynnast honum í gegnum tjáskiptaforritið. Þannig hafa þeir komið kennara sínum á óvart með áhuga á  viðfangsefnum sem þeir höfðu ekki tök á að sýna áður. Með þessum búnaði er líka hægt að ljá nemendum rödd og veita þeim möguleika til afþreyingar, s.s. í tónlist, sögum og myndböndum.

Í Klettaskóla er notaður tvenns konar augnstýribúnaður. Annars vegar er það MyGaze-hugbúnaður og hins vegar Tobii. Augnstýribúnaður er í fjórum kennslustofum og jafnframt í sérstöku augnstýrirými.  

Enn er verið að byggja upp þekkingu á augnstýribúnað fyrir fatlað fólk  hér á landi.  Samfélagsmiðlar eiga stóran þátt í þeirri þekkingarmiðlun og t.d. eru hópar á Facebook þar sem málin eru rædd og ábendingar koma fram um efni sem nýtist til kennslu. Í hópnum Augnstýring á Íslandi er hægt að deila upplýsingum og  leita ráða.  

Klettaskóli er ráðgjafarskóli og þar er nú komin góð reynsla og þekking á augnstýribúnaði og fjölbreyttum forritum sem hægt er að nota. Leita má til skólans um  ráðgjöf fyrir einstaklinga á öllum aldri.