Aspir víkja fyrir þjónustuíbúðum

Umhverfi Framkvæmdir

""
Á næstu dögum munu hefjast framkvæmdir við Suðurlandsbraut 68-70 í Mörkinni. Byrjað verður á því að  fjarlægja nokkurn fjölda aspa sem eru þarna áður en bygging 74 þjónustuíbúða fyrir aldraða getur hafist.
Skógarafurðir ehf. munu sjá um að fella aspirnar og verða þær nýttar í framleiðslu á íslenskum flettiviði.  Að sögn Bjarka Jónssonar hjá Skógarafurðum er öspin vanmetinn viður því hann er breytingarlaus dauður og er mjög fallegur í panel. Skógarafurðir leggja mikla áherslu á að nýta tré sem felld eru og koma í veg fyrir að þeim sé fargað.
 
Byggingarframkvæmdir hefjast svo þegar búið er að fella aspirnar en þarna rísa eins og áður sagði 74 íbúðir. Það er Grund sem stendur að baki framkvæmdunum og verða nýjar þjónustuíbúðir teknar í notkun snemma árs 2018.