Ásgerður ráðin leikskólastjóri í Hálsaskógi

Skóli og frístund

""

Ásgerður Guðnadóttir hefur verið ráðin leikskólastjóri í Hálsaskógi, sjö deilda leikskóla í Seljahverfi. 

Ásgerður lauk  prófi frá Fósturskóla Íslands 1993 og er með B.Ed. próf í leikskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands og diplómu í stjórnun menntastofnana frá sama skóla. Hún hefur starfað sem deildarstjóri í leikskóla í 8 ár og sem aðstoðarleikskólastjóri í 16 ár, lengst af í Fífuborg, en sl. tvö ár í Hálsaskógi. Ásgerður hefur stýrt þróunarverkefnum, s.s.  Samskipti og lýðræði í leik þar sem samskipti barna og starfsfólks voru skoðuð og var verkefnastjóri í Nordplus-verkefninu The Earth depends on me sem fjallaði um umhverfismennt. Hún leggur áherslu á að leikskólinn sé fyrir börnin, að þau fái tækifæri til að blómstra og að hlustað sé á skoðanir þeirra og viðhorf. Ásgerður tekur við stöðunni 1. nóvember.

Tveir umsækjendur voru um leikskólastjórastöðuna í Hálsaskógi en umsóknarfrestur rann út 11. september.