Árbæjarskóli fagnar fimmtíu ára afmæli

Mannlíf Menning og listir

""

Afmælishátíð verður í Árbæjarskóla laugardaginn 29. apríl. Nemendur eru á fullu að undirbúa hátíðina. 

Árbæjarskóli fagnar þessa vikuna og fram í þá næstu hálfrar aldar afmæli skólans með menningarviku, þemavinnu, opnu húsi og sýningum á söngleiknum Konungi ljónanna. Vikan hófst á skrúðgöngu um Árbæjarhverfi og formlegri setningu afmælisvikunnar í skólanum og svo var hafist handa við margvíslega skapandi vinnu til að gera afmælihátíðina sem flottasta.

Allir nemendur hafa í vikunni hamast við að undirbúa afmælishátíðina; skreytt skólann í hólf og gólf og undirbúið mótttöku gesta svo sem með því að baka súkkulaði- og hrískökur,. Á hátíðinni verða flutt atriði úr Konungi ljónanna og voru nemendur á þemadögum í vikunni að setja upp sviðið og mála leikmyndina, æfa dansatriði og leggja lokahönd á litríkar grímur og búninga.

Meðal þess sem verður í boði á afmælishátíðinni á laugardaginn eru stuttmyndir eftir nemendur um sögu skólans, myndasýningar og sýningar á sal þar sem nemendur á öllum aldri stíga á stokk.

Allir gamlir nemendur og velunnarar Árbæjarskóla eru velkomnir á opið hús í skólanum á afmælishátíðinni á laugardag 29. apríl frá kl. 10 -14.00.