Ánægja með þjónustu dagforeldra

Skóli og frístund

""

Yfirgnæfandi meirihluti foreldra barna hjá dagforeldrum í Reykjavík eru ánægður með þjónustu þeirra, eða 88%. 

Þetta kemur fram í könnun sem gerð var á vegum skóla- og frístundasviðs. Til samanburðar  voru 93% foreldra ánægðir með þjónustu dagforeldra á árinu 2014 þegar sambærileg könnun var síðast gerð.

Almenn ánægja var með flesta þætti í þjónustu dagforeldra, s.s. aðstöðu inni og úti, fæði, dagskipulag og vistunartíma. Mest var óánægja foreldra vegna kostnaðar við daggæsluna, þar sem nær 40% prósent telja hann of mikinn. Þá hefur óánægja foreldra með fyrirkomulag á veikinda- og frídögum dagforeldra aukist töluvert á milli kannana. Þorri foreldra taldi það jákvætt að dagforeldrar ynnu tveir eða fleiri saman við daggæslu.

Í könnuninni kom fram að flestir nýta sér þjónustu dagforeldris í sama hverfi og þeir búa, en um þriðjungur utan búsetuhverfis. Helst var sótt úr öðrum hverfum í þjónustu dagforeldra í Laugardal-Háaleiti og mest var um að foreldrar sem bjuggu í Miðborg-Hlíðum sæktu daggæslu út fyrir sitt hverfi.

Svarhlutfall þeirra foreldra sem vildu frekar vistun í leikskóla eykst á milli kannana og sögðust 58% frekar vilja vistun fyrir barn sitt í leikskóla. Svarhlutfall við samskonar spurningu á árinu 2014 var 43%.  

Tæpur þriðjungur barnanna byrjuðu hjá dagforeldri 7-9 mánaða gömul og 44% þegar þau eru 10-12 mánaða. Litlar breytingar eru á milli ára hvað þetta varðar.

Sjá könnunina í heild sinni.

Dagforeldrar vilja meira samstarf
Í könnun sem gerð var meðal dagforeldra í borginni kom fram ánægja þeirra langflestra með eftirlit af hálfu skóla- og frístundasviðs eða 87%. Sömuleiðis er ánægja hjá dagforeldrum með samskipti og heimsóknir daggæsluráðgjafa á þjónustumiðstöðvunum. Næstum þrír af hverjum fjórum dagforeldrum vinnur með öðrum dagforeldrum og felst sú samvinna t.d. í að hittast með barnahópana og einnig í ráðgjöf og stuðningi vegna barnanna og/eða foreldra. Meirihluti dagforeldra, eða 60%, myndu samkvæmt könnuninni vilja vera í samvinnu við leikskóla í hverfi daggæslunnar.

Sjá könnunina í heild sinni.