Álfaland 30 ára

Velferð

""

Álfaland, skammtímavistun fyrir fötluð og langveik börn, er 30 ára á þessu ári en börn hafa komið í vist þar síðan í janúar 1987.

Í dag var haldið upp á afmælið með pomp og prakt, hnallþórur, grill, popp og hoppukastali og fullt af gestum. Í boðið komu samstarfsfólk hjá velferðarsviði starfsmenn Álfalands, börn og ættingjar, bæði börn sem eru á aldri til að dvelja í Álfalandi og líka krakkar sem hafa verið þar en eru nú orðin of gömul.  Að sjálfsögðu var nágrönnum í Álfalandi líka boðið í afmælið.

Í Álfalandi er starfsemi allt árið, 40 börn nota þjónustuna reglulega og er meðaldvalartími þeirra 60 dagar yfir árið.  Nýting á heimilinu er alltaf hundrað prósent en þangað koma börn á aldrinum 0-12 ára og sex börn geta dvalið þar í einu.

Í Álfalandi starfa 26 starfsmenn í tæplega 15 stöðugildum og unnið er á vöktum. Það er gefandi og skemmtilegt að vinna í Álfalandi og lítil starfsmannavelta. Þess má geta að þrír starfsmenn hafa unnið þar allt frá upphafi eða í 30 ár.

Það er breiður hópur fatlaðra barna sem kemur til dvalar hjá Álfandi.  Flest þeirra eru með þroskahömlun. Álfaland mætir þörf foreldra og forráðamanna fyrir skammtímavistun því það er álag að eiga langveikt barn og oftar en ekki þýða það svefnlausar nætur. Stöðugt bætast yngri börn við og ekki er óalgengt að þau komi strax á fyrsta ári.

Að sögn starfsmanna eru óskir foreldranna að fá minnst sjö daga hvíld í mánuði, sumir meira aðrir minna, svo og í sumar- og vetrarfríum og ef að veikindi koma upp í fjölskyldunni. Til að koma á móts við þessar óskir hefur verið reynt að bjóða þeim börnum sem mest þurfa á að halda tvær vistanir í mánuði, þrjá virka daga, frá mánudegi til fimmtudags og eina helgi, frá fimmtudegi til mánudags eða fjóra daga.