Aldrei víðtækari samráð um stefnumótun

Skóli og frístund

""

Alls tóku 1.250 manns þátt í opnu samráði um menntastefnu Reykjavíkur sem fram fór í liðnum mánuði. Settar voru fram á annað þúsund hugmyndir um áherslur og aðgerðir í skóla- og frístundamálum fram til ársins 2030 og fram komu rök með eða á móti hugmyndum frá á fjórða hundrað manns.

Samráðið fór fram í tveimur áföngum á Betri Reykjavík. Í fyrri áfanga á vormisserinu var leitað hugmynda um á hvaða færniþætti leggja bæri áherslu á í stefnumótuninni og í þeim síðari í nóvember var leitað hugmynda um leiðir og aðferðir til að framfylgja þeim fimm megináherslum sem komu út úr fyrri hluta samráðsins. Jafnframt fór fram víðtækt samráð með þjóðfundarsniði meðal barna, nemenda, foreldra, stjórnenda og starfsfólks í skóla- og frístundastarfinu.  

Þetta er í fyrsta sinn að fram fer svo víðtækt samráð um stefnumótun á vegum Reykjavíkurborgar með aðkomu allra hagsmunaaðila og borgarbúa. Hátt í tíu þúsund manns hafi komið að stefnumótuninni með einum og öðrum hætti, á hugarflugsfundum í skólum og frístundamiðstöðvum og í rafrænu samráði.  

Meðal tillagna sem fram komu í gegnum Betri Reykjavík var að efla bæri gagnalæsi og innleiða opin námsgögn, innleiða hugleiðslu og jóga-æfingar í skólastarfið, efla gagnrýna hugsun og setja upp gróðurhús við alla grunnskóla.

Vinna við menntastefnu Reykjavíkur fram til ársins 2030 er nú á lokastigi, en að úrvinnslu koma innlendir og erlendir sérfræðingar, kjörnir fulltrúar, ráðgjafar og fulltrúar allra hagsmunaaðila. Í stefnunni verður lögð megináhersla á félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði í skóla- og frístundastarfinu. Stefnunni mun fylgja aðgerðaáætlun sem byggir á hugmyndum úr þessu víðtæka samráði. 

Skoða má fram komnar hugmyndir á Betri Reykjavík.