Áhersla á fjölbreytni nýrra íbúða

Stjórnsýsla Umhverfi

""

Tjarnarsalurinn í Ráðhúsinu var þéttsetinn í morgun á kynningarfundi borgarstjóra um uppbyggingu nýrra íbúða í Reykjavík, en farið var yfir fjölbreytt uppbyggingaráform einkaaðila, stúdenta, byggingarsamvinnufélaga og áherslur borgarinnar á nýjum uppbyggingarsvæðum og í húsnæðismálum.  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti sjónarmið borgarinnar um  uppbyggingu leigumarkaðar og félagslega blöndun, en áætlað er að 2.500 – 3.000 leiguíbúðir fari í uppbyggingu í Reykjavík á næstu 3 – 5 árum.  

Dagur kynnti hugmyndir um ný uppbyggingarsvæði og sagði það vera markmið Reykjavíkurborgar að á þeim svæðum yrði að minnsta kosti 25% leiguhúsnæði, hvort heldur á almennum leigumarkaði eða sem  búseturéttarhúsnæði.  Í framtíðaráherslum Reykjavíkurborgar er einnig gert ráð fyrir að Félagsbústaðir eigi kauprétt á allt að 5% íbúða fyrir félagslegar leiguíbúðir til að tryggja góða félagslega blöndun í öllum hverfum.

Sýningin er byggð á góðri samvinnu Reykjavíkurborgar við fjölmarga aðila á byggingamarkaði, einkaaðila, búsetufélög, byggingafélög stúdenta og aldraðra o.fl.  Með slíkri samvinnu sem og góðu borgarskipulagi á að ná fram þeirri áherslu sem aðalskipulag gerir ráð fyrir um fjölbreytileika í stærð og gerð íbúða.

Dagur sagði að nýta þyrfti bæði land og innviði borgarinnar sem best og kynnti samningsmarkmið borgarinnar varðandi ný uppbyggingarsvæði þar sem gert er ráð fyrir að stofnkostnaður innviða fyrir uppbyggingarsvæðið verði borinn af uppbyggingunni.  Þá er gert ráð fyrir því að um 1% af stofnkostnaði nýrra uppbyggingarsvæða verði varið til listar í almenningsrými.  Jafnframt er við ákvarðanir um uppbyggingu lögð áhersla á gæðasvæði og gott umhverfi , sem og að varðveita staðaranda og byggingar.

Kynningarfundur á fimmtudag kl. 17

Kynningarfundur borgarstjóra verður endurtekinn á morgun og verður þá síðdegis til að gefa fleirum kost á að komast. Fundurinn verður  fimmtudaginn 13. nóvember kl. 17 – 18:30.

Sýning með upplýsingaefni frá fyrirtækjum og Reykjavíkurborg opnaði í morgun og mun hún hanga upp á göngum Ráðhússins til 19. nóvember.  Þegar byggingaráætlanir fyrirtækja ásamt upplýsingum um skipulagsáform Reykjavíkurbogar eru skoðar má ætla að byggðar verði 4 – 6.000 nýjar íbúðir á næstu 4 – 5 árum.

Myndbönd og glærukynning sýna mikla uppbyggingu

Borgarstjóri notaði glærukynningu til að sýna betur byggingarsvæði og fyrirætlanir.  Sjón er sögu ríkari og má skoða kynninguna undir tengli hægra megin á síðunni eða hér >>  Opna glærukynningu borgarstjóra.  

Hér fyrir neðan er myndband sem gert var til að kynna fyrirhugaða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis – einkum það sem lengst er komið í framkvæmdaferlinu.

.