Aðgerðaáætlun um líffræðilega fjölbreytni

Umhverfi

""

Yfir 200 aðgerðir af ýmsum toga er að finna í nýrri aðgerðaáætlun sem byggir á stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni. 

Það kennir ýmissa grasa í áætluninni, t.d. er stefnt að því að klára friðlýsingarferli fyrir Akurey í Kollafirði, vöktun á mikilvægum fuglabúsvæðum í borginni og kortlagningu á útbreiðslu ágengra plantna. Þá verður unnið að því að fræða almenning um áhrif heimilisinnkaupa á líffræðilega fjölbreytni.

Í ársbyrjun 2016 var stefna Reykjavíkur um líffræðilega fjölbreytni samþykkt í borgarstjórn. Þetta er í fyrsta skipti sem borgin mótar sérstaka stefnu um þetta málefni og Reykjavík er auk þess fyrsta höfuðborgin á Norðurlöndum til að samþykkja slíka stefnu.

Líffræðileg fjölbreytni og velferð hennar er með allra mikilvægustu umhverfismálum samtímans. Stigið er stórt skref með því að móta sérstaka stefnu um málaflokkinn. Þar með er tryggt að stærsta sveitarfélag landsins taki þátt í þeim skuldbindingum sem Ísland hefur samþykkt á alþjóðlegum vettvangi, einkum með þátttöku í Samningi Sameinuðu þjóðanna. Stefna Reykjavíkur um líffræðilega fjölbreytni spannar breitt svið og hefur víða skírskotun í ýmsa málaflokka, einkum en þó ekki einungis á sviði umhverfismála. Stefnuna má skoða hér, og einnig á ensku.

Hlutverk aðgerðaáætlunar sem unnin var út frá stefnunni er að tryggja að skipulega verið unnið eftir markmiðum stefnunnar. Aðgerðaáætlunin nær yfir tíu ár, frá 2016-2026.

Yfir 200 aðgerðir

Meðal aðgerða er varða rannsóknir og upplýsingaöflun um líffræðilega fjölbreytni má nefna að stefnt er að því að byggja ofan á ítarleg vistgerðakort Náttúrufræðistofnunar Íslands og kortleggja betur valin svæði innan Reykjavíkur. Náttúruminjar sem krefjast sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, t.d. votlendi og ýmsar jarðminjar, verða kortlagðar sérstaklega. Grunnrannsóknir á náttúrufari í tengslum við gerð skipulagsáætlana verða efldar. Vöktun lífríkis í borginni verður haldið áfram t.d. við Reykjavíkurtjörn og víðar og bætt við vöktun, m.a. á völdum fjöruvistkerfum og mikilvægum búsvæðum fyrir fugla. Einnig verður lögð áhersla á að bæta framsetningu upplýsinga um náttúrufar borgarinnar í landupplýsingakerfi Reykjavíkur.

Aukið vægi grænna innviða

Meðal aðgerða sem ætlað er að styrkja stöðu líffræðilegrar fjölbreytni í Reykjavík má nefna að friðlýsingarferli fyrir Akurey í Kollafirði verður klárað en þar er afar mikilvægt lundavarp. Einnig verður lagt mat á friðlýsingargildi mikilvægra verndarsvæða í Reykjavík, einkum á búsvæði fugla og gerðar tillögur að frekari friðlýsingum. Endurheimt votlendis í Úlfarsárdal er þegar í undirbúningi og skoðuð verða fleiri tækifæri til endurheimtar votlendis t.d. á Kjalarnesi. Innleiddir verða ferlar til að tryggja að unnið verði gegn óþarfa raski á gróðurþekju vegna framkvæmda. Við skipulag og hönnun í Bryggjuhverfi II í Elliðaárvogi verður unnið að því að móta náttúrulega strandlínu. Einnig verður haldið áfram að styrkja búsvæði fyrir varpfugla við Reykjavíkurtjörn og í Friðlandinu í Vatnsmýri. Vægi grænna innviða í borginni verður aukið með skýrari innleiðingu þeirra í skipulagsáætlanir fyrir byggð – þar má nefna græn þök, smærri garða og skjólbelti. Þá verður lögð áhersla á að hönnun ofanvatnslausna taki tillit til mikilvægi þeirra sem búsvæði fyrir líffræðilega fjölbreytni, ekki síst ferskvatnslífverur. Efld verður ræktun og gróðursetning fjölæringa og berjarunna sem laða að fuglalíf.

Unnið gegn ógnum við líffræðilega fjölbreytni

Ýmsar ógnir steðja að líffræðilegri fjölbreytni í borginni og mikilvægt að vinna gegn þeim. Aðgerðir sem miða að því eru t.d. greining og skilgreining mótvægisaðgerða gegn óþarfa búsvæðaeyðingu. Áætlað er að kortleggja helstu áhættustaði í Reykjavík með tilliti til umhverfismengunar og áhrifa hennar á líffræðilega fjölbreytni og skilgreina samstarf við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur varðandi eftirlit og viðbragðsáætlanir.

Skoðuð verða tækifæri til aukinna rannsókna á mengun, t.d. áhrif trjágróðurs á svifryksmengun og áhrif ljósmengunar á fuglalíf. Einnig er stefnt að vitundarvakningu gegn plastmengun í sjó sem og ruslmengun í borgarumhverfinu. Lögð verður áhersla á að uppræta tröllahvannir í borgarlandinu og hefta útbreiðslu ágengra plöntutegunda. Fylgst verður með stofnstærðum kanína og minka í borginni. Þá verður samþætting við aðgerðir í loftslagsstefnu borgarinnar skoðuð og athugað hver áhrif loftslagsbreytinga geta orðið á líffræðilega fjölbreytni.

Efla vitund og þekkingu

Fræðsla um líffræðilega fjölbreytni er lykilmarkmið stefnunnar og stefnt er að ýmsum aðgerðum til að efla vitund og þekkingu um málefnið. Fræðsluátakið Reykjavík-iðandi af lífi heldur áfram og verður boðið upp á ýmsa fræðsluviðburði um náttúru borgarinnar og margs konar fræðsluefni í tengslum við það. Fræðsla fyrir grunn- og leikskóla borgarinnar verður í aðalhlutverki en einnig lögð áhersla á samstarf við stofnanir borgarinnar sem sinna fræðsluhlutverki eins og Grasagarð Reykjavíkur, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og Borgarbókasafn - Menningarhús. Þá er stefnt að fræðsluverkefnum þar sem almenningur tekur þátt t.d. Bio-Blitz í Elliðaárdal, verkefnið Lífið í garðinum heima og sérstakt vitundarverkefni um hvernig heimilisinnkaupin hafa áhrif á líffræðilega fjölbreytni á heimsvísu.

Mikilvægar aðgerðir í áætluninni snúa að fyrirkomulagi og áherslum í starfi borgarinnar í tengslum við umhverfisvottun, verkferla og eftirlit. Á þetta einkum við um verkefni á umhverfis- og skipulagssviði þar sem líffræðileg fjölbreytni kemur við sögu, t.d. skipulagsverkefni, stórar framkvæmdir, umhirðu- og ræktunaráætlanir og fleira þess háttar. Brautryðjendahlutverk  stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni verður fest í sessi í aðgerðaáætluninni með því að nýta tækifæri til samstarfs við önnur sveitarfélög en einnig til alþjóðlegs samstarfs t.d. á vettvangi Evrópusamstarfs og í tengslum við verkefni Alþjóðlega samnings Sameinuðu Þjóðanna. Þá verða tækifæri til nýsköpunar nýtt til hins ítrasta og horft til samstarfs við fag- og rannsóknarstofnanir í því sambandi.

Aðgerðaáætlunina má skoða í heild sinni hér: