60 íbúðir fyrir eldri borgara við Stakkahlíð

Framkvæmdir Skipulagsmál

""

Samkvæmt viljayfirlýsingu sem undirrituð var í dag mun Byggingarsamvinnufélagið Samtök aldraðra byggja 60 íbúðir fyrir eldri borgara á reit Kennaraháskóla Íslands við Stakkahlíð.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Magnús B. Brynjólfsson formaður Samtaka aldraðra undirrituðu viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Samtakanna um að þau fái úthlutað lóð á skipulagsreitnum við Stakkahlíð fyrir fjölbýlishús með 60 íbúðum fyrir eldri borgara.

Úthlutunin er í samræmi við markmið húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar og aðalskipulags Reykjavíkur 2010 – 2030 þar sem kveðið er á um fjölbreytt framboð húsnæðiskosta, aukið framboð húsnæðis fyrir alla félags¬hópa og félagslega fjölbreytni innan hverfa og vilyrði Reykjavíkurborgar til Samtaka aldraðra frá apríl 2014.

Íbúðirnar verða flestar litlar eða 40 – 60 fermetrar að stærð.  Samtök aldraðra skuldbinda sig til að leita hagkvæmustu leiða í samningum við verktaka um byggingarframkvæmdir.

Verð byggingarréttar er 40 þúsund krónur á hvern byggðan fermetra ofanjarðar. Að auki greiðir félagið gatnagerðargjöld í samræmi við gjaldskrá Reykjavíkurborgar. 

Hönnun íbúðarhúsnæðisins verður í samræmi við markmið húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar um fjölbreyttar húsagerðir, blöndun íbúðagerða innan hverfa og aukið framboð smærri íbúða fyrir alla félagshópa.

Samtök aldraðra skulu hafa eftirlit með endursölu íbúða í húsunum. Tilkynna skal félaginu formlega vilji íbúðareigandi selja eða leigja íbúð sína.

Í samræmi við húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er sú kvöð á lóðinni að Félagsbústaðir hf., hafi við fyrstu sölu Samtaka aldraðra á íbúðum í húsunum kauprétt að 5% íbúða á lóðinni á sama verði og selt verður til félagsmanna.

Miðað er við að hús á lóðinni hafi tengingu við þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar við Bólstaðahlíð.

Gildistími viljayfirlýsingarinnar er tvö ár frá undirritun hennar.  Byggingarsamvinnufélagið Samtök aldraðra er félag sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða.