500 nýjar félagslegar leiguíbúðir

Velferð

""

Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að heimila Félagsbústöðum að fjölga félagslegum leiguíbúðum borgarinnar um 500 á næstu fimm árum, árin 2015 – 2019. Fjárfesting Félagsbústaða mun nema um 13,5 milljörðum króna.

Tillagan byggir á þarfagreiningu velferðarsviðs með vísan til núverandi þarfar, biðlista og spám um þörf fyrir félagslegt leiguhúsnæði til framtíðar.

Íbúðunum verður fjölgað með byggingu eða kaupum. Gert er ráð fyrir að fjöldi  almennra félagslegra leiguíbúða í eigu félagsins verði um 1.815 í árslok 2014. Eignasafnið talið í fjölda íbúða mun stækka um 28% til ársloka 2019.

Fjárfestingin nemur allt að 13,5 milljörðum á næstu fimm árum. Gert er ráð fyrir því að Reykjavíkurborg og ríki leggi fram um 30% eigið fé, í samræmi við hugmyndir um framtíðarskipan húsnæðismála. Þegar hefur verið óskað eftir formlegum viðræðum við félags- og húsnæðismálaráðherra um aðkomu og stuðning ríkisins við verkefnið.

Gert er ráð fyrir að Félagsbústaðir kaupi eða byggi 550 íbúðir. Fjárfestingin verður fjármögnuð með 70% lántöku á almennum, verðtryggðum markaðskjörum til 50 ára. Á móti verði seldar um 50 íbúðir. Í umsögn og útreikningum fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar er í varúðarskyni miðað við 3,8% verðtryggða vexti. Að mati fjármálaskrifstofu er eðlilegt er að stefna á að tryggja betri kjör lána til fjárfestingarinnar.

Á sama tímabili er gert ráð fyrir að seldar verði 50 minna veðsettar íbúðir úr eignasafni félagsins. Samkvæmt áætluninni verða íbúðir keyptar eða byggðar   fyrir 13,5 milljarða á verðlagi hvers árs en á móti verði seldar íbúðir fyrir um 1,2 milljarða. Nettó fjárfesting í íbúðum verður þannig um 12,3 milljarðar eða tæplega 2,5 milljarðar að jafnaði á ári.

Stofnfjárframlag Reykjavíkurborgar er áætlað rúmlega 1,23 milljarðar á tímabilinu samkvæmt áætlun Félagsbústaða sem er um 200 milljónum krónum meira á ársgrundvelli en framlög borgarinnar hafa verið að jafnaði frá stofnun félagsins.