40 hljómsveitir taka þátt í Músíktilraunum 2017

Skóli og frístund Menning og listir

""

Músíktilraunir er tónlistarhátíð sem stendur yfir í 5 daga, undanúrslit 2017 eru 25.-28. mars í Norðurljósum, Hörpu og úrslit eru 1.apríl á sama stað. 

Hátíðin á sér yfir 30 ára sögu en fyrstu tilraunirnar fóru fram árið 1982. Um 1180 hljómsveitir/listamenn hafa tekið þátt í tilraununum frá upphafi. Músíktilraunirnar veita frábært tækifæri til þess að fylgjast með grasrótinni í íslensku tónlistarlífi og hafa hljómsveitir á borð við Of Monsters and Men, Samaris, Vök og Vio borið sigur úr bítum undanfarin ár.

Ungmenni á aldrinum 13-25 ára geta sótt um þátttöku. Undankvöldin eru fjögur þar sem u.þ.b. 40 hljómsveitir keppa að því takmarki að komast áfram á úrslitakvöldið. 

Um 10-12 hljómsveitir komast í úrslit og hljóta efstu þrjár sveitirnar glæsileg verðlaun. Efnilegustu hljóðfæraleikararnir eru einnig valdir af dómnefnd en áhorfendur velja vinsælustu hljómsveitina með símakosningu. Undanfarin ár hefur úrslitakvöldinu verið útvarpað um land allt af Rás 2 og árið 2016 hóf Ríkissjónvarpið að streyma úrslitakvöldinu í beinni útsendingu á www.ruv.is.

Það eru samanlagt 118 ungmenni sem taka þátt í ár á aldrinum 13-25 ára. Kynjaskiptingin er slík að 89 strákar taka þátt og 29 stelpur sem er um 25% eða einn fjórði þátttakenda. Það er nýtt met í þátttöku stelpna í Músíktilraunum en á undanförnum árum hefur fjöldi stelpna á hátíðinni aukist jafnt og þétt en árið 2010 voru þær einungis 10% þátttakenda. Að taka þátt í Músíktilraunum er frábær upplifun og ómetanleg reynsla fyrir upprennandi og skapandi tónlistarfólk.

Úrslitakeppnin er haldin í Hörpu þann 1. apríl ekki missa af því.

 Kíktu á dagskrána á www.musiktilraunir.is