32 tillögur um samfelldan dag barna

Skóli og frístund

""
Starfshópur um samfelldan skóladag 6-16 ára barna í borginni hefur skilað tillögum sínum, en hann tók til starfa fyrir tveimur árum í samræmi við samstarfssáttmála þeirra flokka sem mynda meirihluta í borgarstjórn. 
Meginverkefni hópsins var að horfa til fjölbreyttra tækifæra til útivistar og útináms, íþróttaiðkunar og listnáms um alla borg og gera áætlun um hvernig flétta megi fjölbreyttar tómstundir inn í samfelldan dag barna. Í því samhengi var m.a. horft til frístundaaksturs og lagt mat á hugmyndir og tilraunaverkefna um að eldri grunnskólabörn hefji skóladaginn síðar.
 
Starfshópurinn skilgreindi hugtakið samfelldur dagur barna á þann veg að hann fæli í sér hvernig skóla- og frístundastarfi sem börnum og unglingum á grunnskólaaldri stendur til boða fellur hvert að öðru og annarri hreyfingu, námi, afþreyingu, hvíld og næringu sem þau fá yfir daginn og fram á kvöld.
 
Meðal þess sem hópurinn leggur til er að stjórnendur í skóla- og frístundastarfi í hverju hverfi móti með sér sameiginlega sýn og grunngildi sem fagstarfið byggi á, umgengni og hegðun í umhverfi barna og ungmenna og ákveði hvað skuli vera samræmt og hvað ekki. Þá er lagt til að æfingatími frjálsu félaganna fyrir börn og unglinga verði betur samræmdur þeirri starfsemi sem fram fer  á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum  í hverju hverfi fyrir sig. Einnig að aukið verði framboð á tómstundastarfi tengdu skapandi listastarfi fyrir börn og unglinga, sérstaklega í úthverfum.
 
Starfshópurinn bendir einnig á ósamræmi í gjaldskrám fyrir leikskóla og sumarfrístund sem grunnskólabörnum býðst  og leggur til að hún verði samræmd. Jafnframt að efla skuli starfsemi félagsmiðstöðva fyrir 10-16 ára börn með auknu fjármagni stefnumótun og fræðslu til starfsfólks.
 
Þá eru tillögur um að styrkur borgarinnar til hverfisíþróttafélaga vegna frístundaaksturs verði hækkaður og að settar verði reglur um fylgd starfsfólks frístundaheimilanna með börnum í annað frístundastarf. Einnig að foreldrafélög verði hvött til þess að ræða svokallaðan rafrænan útivistartíma barna, til að koma í veg fyrir að börnin séu í tölvum eða snjalltækjum langt fram eftir nóttu.
 
Skýrslan starfshópsins var kynnt í skóla- og frístundaráði 24. ágúst